Fámennt og góðmennt

Geir Ólafsson fær til sín góða gesti og heldur ferna …
Geir Ólafsson fær til sín góða gesti og heldur ferna jólatónleika í næstu viku.

Söngvarinn Geir Ólafsson varð að fresta þrennum jólatónleikum í fyrra en þar sem hann sé innan fjöldatakmarkana trufli ekkert fyrirhugaða ferna tónleika í Gamla bíói í næstu viku eða 2., 3., 4. og 5. desember. „Ég er svo heppinn að hugsa ekki um peninga heldur gæði og því komast aðeins 320 manns á hverja tónleika og þar af 170 í þriggja rétta kvöldverð í glæsilega skreyttum salnum,“ segir tónlistarmaðurinn.

Sem fyrr verður úrval tónlistarmanna á sviðinu. Sjö manna stórhljómsveit píanóleikarans Dons Randis kemur frá Bandaríkjunum en hana skipa auk hans Bernie Dresel trymbill, Chris Roy bassaleikari, John de Patie gítarleikari, Harry Kim trompetleikari, Chuck Findley trompetleikari og Brandon Fields saxófónleikari. Þar fyrir utan koma fram íslensku tónlistarmennirnir Þórir Baldursson orgelleikari, Vilhjálmur Guðjónsson saxófónleikari, Heimir Ingi Guðmundsson, sem leikur á básúnu, Birgir Niels slagverksleikari og Ástvaldur Traustason píanóleikari með meiru, að ógleymdum Geir Ólafssyni, en Guðný Guðmundsdóttir konsertmeistari verður sérstakur gestur. Stefán Henrýsson leikur undir borðhaldi, Eva Þórisdóttir sér um skreytingar í sal og Selma Karlsdóttir heldur utan um viðburðinn.

„Við höfum byggt tónleikana upp ár frá ári og sem fyrr er valinn maður í hverju rúmi,“ segir Geir, en fyrstu jólatónleikar hans í anda sambærilegra tónleika í Las Vegas í Bandaríkjunum voru í desember 2016. Hann segist leggja áherslu á að bjóða upp á skemmtun þar sem ekkert sé til sparað og gestir eigi kost á að njóta góðs kvöldverðar og tónleika í kjölfarið. „Aðalatriðið er að gera eins vel og hægt er til að upplifun gestanna verði sem best.“

Góðar viðtökur

Don Randi kom til landsins fyrir jólin 2015 í þeim tilgangi að kynna sér jólatónleika hérlendis. „Hann er goðsögn í Bandaríkjunum og við höfum unnið lengi saman. Við ákváðum að reyna eitthvað nýtt og úr varð sambland af mat og tónleikum, þar sem við buðum upp á unga, nýútskrifaða og tiltölulega óþekkta gestasöngvara.“ Viðtökurnar hafi verið góðar á fyrstu tónleikunum 2016, tvennir tónleikar hafi verið árið eftir og þrennir 2018 og 2019, en viðburðinum hafi verið frestað í fyrra vegna kórónuveirufaraldursins. Margir hafi ákveðið að geyma miðana þar til í ár og því hafi þeir forgang en viðbótarmiðar séu komnir í sölu (tix.is). „Ég er sérstaklega þakklátur fyrir það að geta haldið tónleika fyrir fólkið sem geymdi miðana frá því í fyrra og geta boðið fleiri gestum til viðbótar,“ segir Geir. Hann vekur athygli á því að gestir þurfi að láta vita af sérþörfum í mat (svo sem ofnæmi, óþoli og vegan) með að minnsta kosti viku fyrirvara á gamlabio@gamlabio.is og allir verði að framvísa neikvæðu hraðprófi. „Svo verður þetta bara gaman,“ segir Geir, sem ráðgerir að gefa út plötu með eigin efni á næsta ári.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert