Laun, álag og umhverfi ástæða uppsagna

Nokkrir hjúkrunarfræðingar á bráðamóttöku Landspítalans hafa sagt störfum sínum lausum …
Nokkrir hjúkrunarfræðingar á bráðamóttöku Landspítalans hafa sagt störfum sínum lausum undanfarna daga. mbl.is/Unnur Karen

Lök kjör hjúkrunarfræðinga eru rót þess mönnunarvanda sem nú hrjáir Landspítalann. Þetta segir formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Formaður félags hjúkrunarfræðinema segir marga úr sínum röðum leita annað eftir útskrift.

Í samtali við Morgunblaðið segir Guðbjörg Pálsdóttir, formaður FÍH, ástæður uppsagna hjúkrunarfræðinga vera launin, álagið og starfsumhverfið. Hún segir stjórnvöld vita hvað þurfi að gera en hafi ekki kjark til að leggja af stað í verkefnið.

„Það er búið að benda á hvað þarf að gera, en ekkert gerist. Heilbrigðisráðherra setti af stað tvo vinnuhópa þar sem mönnun og menntun hjúkrunarfræðinga var skoðuð. Búið er að vinna tvær skýrslur um það og í þeim eru tillögur um úrbætur, þannig að þetta liggur allt saman fyrir.

Það þarf bara kjark og dug til að fara í þetta mál. Það þarf sameiginlegt átak yfirvalda, með lengri sýn en eitt kjörtímabil, og það mun kosta fé,“ segir Guðbjörg.

Guðbjörg Pálsdóttir, formaður félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.
Guðbjörg Pálsdóttir, formaður félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. mbl.is

Stjórnvöld geti hækkað launin

Samið var um nýja kjarasamninga í fyrra. Félagið og ríkið náðu ekki saman um launaliðinn og fór hann fyrir gerðardóm. Var það í annað skipti sem kjarasamningar hjúkrunarfræðinga fara fyrir gerðardóm.

Núverandi kjarasamningar og gerðardómur renna út 2023 en Guðbjörg bendir á að þrátt fyrir það sé ekkert sem banni stjórnvöldum að hækka launin og spyr hvort búið væri að því ef ekki væri um kvennastétt að ræða.

„Í síðustu tvennum samningum hafa yfirvöld haft tækifæri til þess að mæta vandamálinu varðandi kjör hjúkrunarfræðinga en treystu sér ekki í verkefnið. Því enduðu samningarnir 2015 og 2020 í gerðardómi. Kjarasamningar eru til viðmiðunar. Þeim er algjörlega heimilt að borga umfram grunnkjarasamninga. Þau gætu leyft lögmálinu um framboð og eftirspurn að ríkja hjá hjúkrunarfræðingum, rétt eins og er gert við aðrar stéttir þar sem skortur er á starfsfólki,“ segir Guðbjörg og heldur áfram:

„Ég spyr mig hvort þau geri það ekki vegna þess að 97% hjúkrunarfræðinga eru konur eða vegna þess að við erum fjölmennasta heilbrigðisstéttin? Væri sama nálgun ef um væri að ræða stétt með meirihluta karla?“

Hjúkrunarfræðinemar bugaðir

Tinna Alicia Kemp, formaður Curator, félags hjúkrunarfræðinema við HÍ, segir nemana taka heilshugar undir málaflutning hjúkrunarfræðinga. Margir hjúkrunarfræðinemar sýni nú þegar merki um kulnun í starfi.

Tinna Alicia Kamp.
Tinna Alicia Kamp. Ljósmynd/Aðsend

„Það eru mjög margir hjúkrunarfræðinemar sem vinna á spítalanum. Það er rosalega mikið álag á þeim líka og margir sem sýna merki um kulnun fyrir útskrift. Margir vilja vinna á spítalanum en eru ekki tilbúnir að leggja það á sig og leita því annað eftir útskrift,“ segir Tinna. Hún bendir sömuleiðis á að leiðinlegt sé fyrir neman a að horfa á eftir fyrirmyndum sínum í starfinu, sem gefist upp sökum álags.

„Það er mjög sorglegt að horfa upp á margar fyrirmyndir okkar í starfi brenna út og segja upp starfi sínu. Við stöndum heilshugar með hjúkrunarfræðingum um að bæta laun, starfsumhverfið og álagið.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert