Ríkið tryggi flugið til Eyja

Vestmannaeyjar.
Vestmannaeyjar. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Þess er vænt að nú í vikunni fáist svör frá samgönguráðuneyti um hvernig áætlunarflugi milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja verði háttað í vetur, skv. skilgreindu lágmarki tengdu Covid-faraldrinum.

Sótt er á ríkið um að flugsamgöngur komist aftur á sem fyrst. Vestmannaeyjabær óskar þess að boðið verði upp á tvær ferðir í viku við þessar aðstæður. Það er þó yfir lágmarksþjónustu sem var skilgreind sl. vetur þegar ráðuneytið styrkti samgöngur til Eyja. „Við höfum fengið þau svör að fleiri en tvær styrktar ferðir í viku sé yfir lágmarki. Ef slíkt er niðurstaðan er mikilvægt að flugfélagið sem semur við Vegagerðina fái hins vegar að bæta við ferðum þegar þess er þörf,“ segir Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Eyjum, í samtali við Morgunblaðið.

Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.
Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum. Ljósmynd/Óskar Pétur Friðriksson

Flugsamgöngur til og frá Vestmannaeyjum hafa legið niðri síðan Icelandair hætti í sumarlok. Félagið hafði þá verið með ferðir frá því í lok síðasta árs, samkvæmt áformum sem ekki gengu upp. Síðan þá hefur bæjarstjóri átt samtöl við samgönguráðherra og Vegagerðina um úrlausn málsins.

Á fundi í bæjarráði í sl. viku var upplýst að ráðuneytið myndi kanna hver niðurgreiðsla þyrfti að vera á flugi á þessari leið, svo gerlegt væri. Slíkur stuðningur er ýmsum skilyrðum háður en svigrúm er þó fyrir hendi nú vegna Covid-faraldursins. Ráðuneytið hefur einnig kynnt að Vegagerðin kanni hvort farið verði í útboð á ríkisstyrktu Eyjaflugi til lengri tíma, sem verður að samræmast EES-reglum.

„Vonandi fáum við svör um lágmarksfjölda ferða til Eyja í vikunni, en könnun á forsendum og undirbúningur ríkisstyrkts flugs tekur einhverja mánuði. Mikið er í húfi, svo að Eyjamenn geti sótt þjónustu á fastalandið innan dagsins, auk þess sem reglulegar ferðir skipa miklu fyrir til dæmis heilbrigðisþjónustu og atvinnulíf hér í bæ,“ segir Írs. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert