Settur í skráningarbann hjá GR

Félagar í GR á velli klúbbsins.
Félagar í GR á velli klúbbsins. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Félagi í Golfklúbbi Reykjavíkur var settur í skráningarbann á völlum félagsins eftir að upp komst að hann hafði tengt forrit við tölvukerfið Golfbox. Þannig gat hann skráð rástíma að vild. Hópur félagsmanna fékk jafnframt áminningu út af þessu.

Málið komst upp í sumar. Samkvæmt heimildum RÚV komu félagar í klúbbnum auga á að sami hópurinn gat yfirleitt bókað nokkur holl í röð. Vegna mikillar aðsóknar að völlum félagsins komast jafnan færri að en vilja.

Svokölluð skrifta var notuð í þessum tilgangi. Með því hafi forrit sem innihélt allar upplýsingar um leikmennina verið tengt við Golfbox. Aðeins hafi þurft að ræsa það til að skrá þá alla á skömmum tíma.

Ekki náðist í Björn Víglundsson, formann Golfklúbbs Reykjavíkur, við vinnslu fréttarinnar en í samtali við RÚV segir hann málið hafa verið sent til aganefndar golfklúbbsins. Þar var ákveðið að sá brotlegi skyldi settur í skráningarbann og að þeir sem hann skráði fengju áminningu því ekki þótti sannað að þeir hefðu vitað um athæfið.

Björn sagðist jafnframt hafa heyrt af því að þetta væri ekki eina málið sinnar tegundar sem hefði komið upp innan Golfsambands Íslands.

mbl.is