Hæsta sektin var 350 þúsund krónur

Lögregla hefur sektað skemmtistaði fyrir brot á sóttvarnalögum, m.a. fyrir …
Lögregla hefur sektað skemmtistaði fyrir brot á sóttvarnalögum, m.a. fyrir að hafa opið of lengi. Mynd úr safni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alls hefur 431 brot gegn sóttvarnalögum verið skráð hjá lögreglu frá 1. mars 2020. Brotin eru skráð á 475 einstaklinga og 73 fyrirtæki en í einhverjum tilvikum eru margir skráðir fyrir sama brot. Þetta kemur fram í svari embættis ríkislögreglustjóra við fyrirspurn Morgunblaðsins.

Brot á sóttvarnalögum taka meðal annars til brota á lokun skemmtistaða og brota á reglum um fjöldatakmarkanir.

Frá 1. október síðastliðnum til og með sunnudeginum 21. nóvember hafa verið skráð 13 brot á sóttvarnalögum.

Sektargreiðslum hefur ekki verið beitt í öllum tilvikum því í 46% brota var ekki talin ástæða til að beita sektum. Mál 129 aðila eru komin í sektarmeðferð, eða fyrir 22% brotanna, en 32% þeirra eru annaðhvort til rannsóknar eða komin til afgreiðslu.

Samkvæmt upplýsingum frá ríkislögreglustjóra var algengasta sektarupphæðin 50 þúsund krónur. Næstalgengast er að fólk hafi verið sektað um 100 þúsund eða 250 þúsund krónur. Lægsta sektin nam 20 þúsund krónum en sú hæsta 350 þúsund krónum. Nú hafa tæpar 7,5 milljónir verið greiddar í sektir, þar af 4,3 milljónir í ár. Rúmar níu milljónir eru í vinnslu eða innheimtumeðferð en sektir upp á 2,7 milljónir hafa verið felldar niður.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert