Segir ekki tilefni til hertari aðgerða

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að þróun kórónuveirufaraldursins undanfarna daga bendi til þess að toppi yfirstandandi smitbylgju hafi verið náð. Miðað við það sé faraldurinn því á niðurleið. 

Hann segir ekki tilefni til að leggja til hertari aðgerðir að svo stöddu. Þrátt fyrir dágóðan fjölda smita í gær segir Þórólfur að ekki sé hægt að einblína á slíka daga.

Ekki tilefni til hertari aðgerða en samt tilefni til varúðar

Þetta sagði hann við mbl.is í morgun, spurður að því hvernig þróunin hefði verið á þeim 10 dögum sem liðnir eru síðan takmarkanir innanlands voru síðast hertar. 

„Maður þarf eiginlega að vera að horfa á þróunina frekar en að horfa bara í einstaka daglegar tölur,“ segir Þórólfur. 

„Ef við gerum það þá svona sýnist manni að við höfum náð toppnum og hins vegar veit maður það aldrei fyrir víst. Mér sýnist þó eins og við höfum náð toppnum og væntanlega getum við þá búist við að við förum að þoka okkur neðar, þróunin hefur verið þannig síðustu daga núna. Við verðum bara að sjá til, mér finnst þetta ekki tilefni til að leggja til einhverjar hertari aðgerðir.“ 

Þrátt fyrir þetta segir sóttvarnalæknir að ekki sé hægt að hrósa happi. Enn séu víða smit að greinast og því megi ekki mikið út af bregða. Faraldurinn geti þannig enn gert okkur lífið leitt þrátt fyrir að hann virðist í rénun þessa stundina.

„Þetta er samt fljótt að breytast. Það þarf ekki nema, eins og núna, hópsmit á Grundarfirði og svo eru enn þá smit á Dalvík,“ segir Þórólfur og bendir á að enn sé tilefni til varúðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert