„Það er klár­lega pott­ur brot­inn þarna“

Ísteka leitar nú leiða til að bæta eftirlit með blóðtöku …
Ísteka leitar nú leiða til að bæta eftirlit með blóðtöku úr fylfullum hryssum hér á landi. Ljósmynd/Christina Raytsiz

„Þrátt fyrir að hafa talið eftirlitið hafa verið gott þurfum við að horfast í augu við það að þarna hafi eitthvað klikkað,“ segir Arnþór Gunnlaugsson, framkvæmdastjóri Ísteka, inntur viðbragða við myndbandi frá svissneskum dýraverndarsamtökum, sem sýnir óviðunandi vinnubrögð við blóðtöku úr fylfullum hryssum.

„Núna er maður bara alveg í auga fellibylsins og við að reyna finna leiðir til þess að bæta eftirlitið,“ segir Arnþór í samtali við mbl.is.

Dýralæknir á vegum Ísteka ávallt viðstaddur

Í yfirlýsingu sem Ísteka birti vegna myndbandsins á laugardaginn síðastliðinn segir að stjórnendur og starfsfólk fyrirtækisins „mislíki“ verulega þau vinnubrögð sem sjást sumstaðar í myndbandinu, þ.m.t. notkun járnstana, harkalega notkun timburbattinga og glefs hunda. Þar segir einnig að fyrirtækið hafi þegar hafið innri rannsókn á birgjum og atvikunum.

Spurður segir Arnþór starfsmenn frá Ísteka vanalega ekki viðstadda blóðtöku úr fylfullum hryssum. Það sé þó ávallt dýralæknir á vegum fyrirtækisins sem framkvæmi blóðtökuna.

„Það fer dýralæknir á staðinn, sem má líta svo á að sé á okkar vegum því hann er verktaki hjá okkur, og það er hann sem sér um blóðtökuna. Svo eru það bændurnir sem sjá um hryssurnar.“

Þá segist hann ekki vita til þess að dýralæknirinn sem var viðstaddur blóðtökurnar sem sjást á umræddu myndbandi hafi gert athugasemdir við óvinunandi vinnubrögð þegar það átti við.

„Mér er ekki kunnugt um það.“

Inntur eftir því segir Arnþór þau vinnubrögð sem sjást í myndbandinu frá svissnesku dýraverndarsamtökunum alls ekki vera í takt við stefnu Ísteka, sem er að vinna að „hagsæld og vellíðan dýra“, samkvæmt vefsíðu fyrirtækisins.

„Nei, það er alveg klárlega pottur brotinn þarna.“

Segir umrætt myndband vera áróður

Þótt nokkur atriði í myndbandinu hafi vissulega vakið óhug hafi aðrir hlutar myndbandsins viljandi verið „óþarflega illa settir upp“, að sögn Arnþórs.

Arnþór Guðlaugsson, framkvæmdastjóri Ísteka.
Arnþór Guðlaugsson, framkvæmdastjóri Ísteka.

„Þetta er áróðursmyndband sem hefur þann tilgang að koma okkur og sambærilegum fyrirtækjum í gröfina. Þetta er unnið af öfga-grænkerum sem trúa því ekki að starfsemi af þessu tagi geti þrifist, alveg sama hvernig hún er framkvæmd.“

Þegar Arnþór frétti af veru dýraverndarsinnanna í sveitinni hafi hann að eigin sögn flýtt sér í ofboði austur á land til að ná tali af þeim, sem tókst eins og sjá má í myndbandinu. Spurður hvort hann hafi reynt að stöðva myndatökur hópsins af starfseminni svarar hann neitandi.

„Í samtalinu við þá getur vel hugsast að ég hafi sagt að við viljum ekki að neinar myndir séu teknar en ég reyndi aldrei að stöðva neinar myndatökur og hvað þá birtingu. Það er einfaldlega ekki rétt.“


Hvers vegna viljið þið ekki að starfsemin sé tekin upp á mynd?

„Það er bara ekki hefð fyrir því að teknar séu myndir af starfsemi sem þessari eða inni í sláturhúsum,“ segir Arnþór.

Það sé þó ekki vegna þess að fólk megi ekki vita hvað sé í gangi eða því eftirlitið sé á einhvern hátt ábótavant heldur einfaldlega vegna þess að myndefni af þessu tagi geti haft ákveðinn „sjokk-faktor“ ef það er sett fram í vitlausu ljósi og það þyki þeim sem vinna með dýrum óþarfi, að sögn hans.

Eftirliti var þó greinilega ábótavant í þessu tilfelli og gagnrýnin réttmæt sem sett hefur verið fram um sum vinnubrögðin.“ 

Leita leiða til að bæta eftirlit enn frekar

Fram að þessu hafi Ísteka talið eftirlit með starfseminni vera gott en eftir að myndband svissnesku dýraverndarsamtakanna kom upp á yfirborðið sé nú verið að leita leiða til að bæta eftirlitið enn frekar, að sögn Arnþórs.

„Þetta er þriggja eða jafnvel fjögurra laga eftirlit. Við erum með dýralækni á staðnum sem er samningsbundinn um að fylgjast með meðferðinni á dýrunum, síðan erum við með dýravelferðarfulltrúa sem fer á milli bæja og skoðar aðstöðu og vinnulagið og svo hefur MAST mikið eftirlit með þessu, meira heldur en tíðkast í öðrum búgreinum,“ segir hann.

„Þrátt fyrir allt þetta þá gerist þetta og þá þurfum við að fara hugsa hvar við getum þétt eftirlitið. Það er stóra málið núna.“

Ísteka hagnast um 1,6 milljarða á síðustu 4 árum

Umfang starfsemi Ísteka hefur aukist umtalsvert undanfarin ár og tvöfaldaðist veltan á síðustu fjórum árum. Velta félagsins á síðasta ári var 1,73 milljarðar, en var árið 2017 839 milljónir. Hagnaður félagsins hefur á þessu tímabili verið um 1,6 milljarðar, eða 400 milljónir að meðaltali á ári. Hefur hann aukist ár frá ári, eða úr 234 milljónum árið 2017 upp í 592 milljónir í fyrra.

Aðaleigandi Ísteka er Hörður Kristjánsson, en sjálfur á hann 44,5% í félaginu og til viðbótar 32,3% í gegnum félagið Klara ehf. Hólmfríður H. Einarsdóttir fer þá með 19,2% í Ísteka.

Eigið fé félagsins um síðustu áramót var 1,65 milljarðar, en félagið greiddi eigendum sínum það árið 300 milljónir í arðgreiðslur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert