Árni orðaður við bæjarstjórastólinn á Nesinu

Árni Helgason.
Árni Helgason. Ljósmynd/Aðsend

Árni Helgason, lögfræðingur og fyrrverandi formaður Heimdallar, segist ekki hafa gert upp við sig hvort hann ætli í framboð í komandi sveitarstjórnarkosningum.

Í bæjarblaði Seltjarnarness, Nesfréttum, var í morgun sagt að líklega muni Árni gera sig gildandi í kosningunum í vor.

Þannig er nafn hans sagt vera nýtt í þeirri umræðu, en Magnús Örn Guðmundsson, forseti bæjarstjórnar, Þór Sigurgeirsson, fyrrverandi bæjarfulltrúi, og Skafti Harðarson, sem hefur verið viðloðandi bæjarpólitíkina áður, eru einnig nefndir á nafn.

„Ég hafði gaman af þessum vangaveltum en hef enga ákvörðun tekið,“ segir Árni um málið í samtali við mbl.is.

Það verða án efa spennandi kosningar á Seltjarnarnesi í vor, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft meirihluta, oftar en ekki hreinan, áratugum saman.

Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri hefur þannig gefið út að hún ætli sér ekki að halda áfram störfum og því verður bæjarstjórastaðan laus í vor.

Uppfært 15:59

Árni var formaður Heimdallar, sambands ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, ekki formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna, eins og áður sagði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert