Lögreglan rannsakar andlát 6 einstaklinga á HSS

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.
Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. mbl.is/Helgi Bjarnason

Lögreglan á Suðurnesjum er með til rannsóknar andlát sex einstaklinga á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja sem ætla megi að hafi verið ótímabær og borið að með saknæmum hætti. Þá rannsakar lögreglan einnig meðferð fimm annarra sjúklinga sem rökstuddur grunur er um að hafi verið skráðir í lífslokameðferð að tilefnislausu og með því hafi öryggi þeirra verið ógnað.

Rannsóknin hófst í kjölfar skoðunar embættis landlæknis og kæru aðstandenda konu einnar sem lést árið 2019 gagnvart þremur starfsmönnum stofnunarinnar sem sakaðir eru um að hafa brugðist starfsskyldum sínum í tengslum við lífslokameðferðir.

Svört skýrsla landlæknis

Héraðsdómur Reykjaness úrskurðaði í byrjun mánaðarins að skipa skyldi tvo dómkvadda matsmenn til að svara fjórum spurningum lögreglunnar í tengslum við rannsóknina. Staðfesti Landsréttur það svo fyrir tæplega tveimur vikum, en úrskurðurinn var ekki birtur strax. Koma fyrrnefndar upplýsingar fram í úrskurði héraðsdóms, en áður hefur verið fjallað um málið og svarta skýrslu landlæknis um meinta vanrækslu sem talin er hafa leitt til andláts að minnsta kosti eins sjúklings. Greindi Rúv frá úrskurðinum fyrr í dag.

Samtals voru þrír starfsmenn stofnunarinnar kærðir til lögreglu vegna andláts 73 ára konu, Dönu Kristínar Jóhannsdóttur, sem tal­in er hafa verið sett í lífs­lokameðferð á Heil­brigðis­stofn­un Suður­nesja að til­efn­is­lausu. Dana lést í októ­ber 2019 eft­ir ell­efu vik­ur í lífs­lokameðferð. Var það gagnvart Skúla Tómasi Gunnlaugssyni, sem bar ábyrgð á meðferðinni, og tveimur öðrum starfsmönnum, lækni og hjúkrunarfræðingi, sem sakaðir eru um að hafa brugðist starfs­skyld­um sín­um. Matsbeiðni lögreglunnar er hins vegar aðeins beint að Skúla og hinum lækninum.

Í svartri og ít­ar­legri skýrslu land­lækn­is vegna máls­ins eru lækn­ar HSS meðal ann­ars sakaðir um mis­tök, van­rækslu, hirðuleysi og van­v­irðingu, með al­var­leg­um og end­ur­tekn­um hætti.

Tvö álit óháðra sérfræðinga liggja fyrir

Fram kemur í úrskurðinum að fyrir liggi tvö álit óháðra sérfræðinga vegna málsins. Fyrra áltið segi að Skúli hafi sýnt „alvarlegan brest í faglegri þekkingu sem ógnað hafi öryggi sjúklinga“ en seinna álitið sýni fram á að vanræksla hafi átt sér stað í veitingu heilbrigðisþjónustu.

Í úrskurðinum kemur fram að báðir læknarnir hafi talið að matið myndi valda þeim tjóni og miska og skoða ætti aðrar leiðir til að rannsaka þessa þætti málsins. Upphaflega lagði lögreglan til að matsmennirnir myndu svara sex spurningum, en fallið var frá einni spurningu.

Fallist á að leggja fjórar spurningar fyrir matsmenn

Í þeim spurningum sem eftir standa er spurt um dánarorsök sjúklingsins. Hvort forsendur hafi verið fyrir því að hefja lífslokameðferð sjúklings, hvort lyfjameðferð hafi verið eðlileg með hliðsjón af ástandi og sjúkdómsgreiningu sjúklings, hvort rétt hafi verið staðið að sjúkdómsgreiningu og meðferð vegna þeirra og hvort skráningar í sjúkraskrá hafi verið framkvæmdar samkvæmt lögum og reglum.

Féllst dómurinn á að fjórar fyrstnefndu spurningarnar yrðu lagðar fyrir matsmennina, en ekki sé þörf á dómkvöddum matsmönnum til að svara seinustu spurningunni um hvort skráningar í sjúkraskrá hafi verið í samræmi við lög.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert