Svör bárust eftir að fenginn var frestur í tvígang

Landspítali hefur svarað fyrirspurn umboðsmanns Alþingis um langtímavistun sjúklings eftir …
Landspítali hefur svarað fyrirspurn umboðsmanns Alþingis um langtímavistun sjúklings eftir að hafa fengið frest í tvígang. Ljósmynd/Sverrir Vilhelmsson

Landspítali hefur skilað svörum til umboðsmanns Alþingis er varða langtímavistun sjúklings á öryggisgangi á Kleppi. Upphaflega hafði spítalinn frest til 21. október til að skila svörum við fyrirspurn umboðsmanns en tókst ekki að standa skil á því. Síðan þá hefur spítalinn fengið frest í tvígang áður en svörin komu.

Greint var frá því í október að umboðsmaður Alþingis hefði til skoðunar langtímavistun sjúklings á öryggisgangi á Kleppi. Sjúklingurinn dvaldi samtals í 572 daga á öryggisgangi, með og án rýmkunar.

Embætti umboðsmanns óskaði eftir frekari gögnum og upplýsingum frá Landspítala um langtímavistunina á grundvelli frumkvæðisheimildar. Átti spítalinn að svara fyrir 21. október.

Vildi umboðsmaður meðal annars fá svör við því hver ástæða vistunarinnar var, aðdragandi hennar, hvernig upplýsingagjöf um réttindi sjúklings hefði verið háttað, hverjir voru upplýstir um vistun viðkomandi og hvernig aðbúnaður sjúklings hefði verið á meðan vistun stóð.

Skiluðu svörum á mánudag

Þegar í ljós kom að ekki væri hægt að skila svörum fyrir 21. október var veittur frestur fram að næstu mánaðamótum. Svör bárust þó ekki þá og fékk spítalinn aftur frest til 22. nóvember sem rann út á mánudaginn.

Samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu umboðsmanns stóð Landspítali við þau skil. Hefur embættið nú fengið í hendur svör við þeim spurningum sem það falaðist eftir og er því ekkert útistandandi lengur.

Umboðsmaður hefur þó ekki gefið upp hvað kemur fram í þeim svörum er bárust og er embættið enn að meta næstu skref enda svörin nýkomin í hendur þeirra.

mbl.is