Hægt að greina drykkjarsýni fyrir ólyfjan

Sviðs- og gæðastjóri hjá RLE segir ekkert því til fyrirstöðu …
Sviðs- og gæðastjóri hjá RLE segir ekkert því til fyrirstöðu að rannsóknarstofan leiti eftir ólyfjan í drykkjarsýnum. mbl.is/Ari

Ekkert er því til fyrirstöðu að Rannsóknastofa í lyfja- og eiturefnafræði hjá Háskóla Íslands (RLE) leiti eftir ólyfjan í drykkjarsýnum, svo framarlega sem sýnið komi frá lögreglu eða öðrum opinberum aðila, segir Elísabet Sólbergsdóttir, sviðs- og gæðastjóri RLE.

„Leitin er aldrei tæmandi en við getum athugað hvort við sjáum eitthvað,“ segir Elísabet í samtali við mbl.is.

Kallað var á sjúkrabíl og lögreglu í gær þegar grunur um byrlun ólyfjan kom upp á Stúdentakjallaranum í kjölfar þess að ung kona féll í ómegin eftir að hafa neytt þar drykkjar.

Í von um að hægt væri að leita fyrir ólyfjan geymdi rekstrarstjórinn drykkinn sem stúlkan hafði verið með svo lögreglan gæti tekið hann til rannsóknar. Tillaga rekstrarstjórans féll hins vegar í grýttan jarðveg lögreglu sem taldi að ekki væri hægt að aðhafast í málinu nema konan myndi láta taka úr sér blóðprufu. Vildu þau því ekkert með drykkinn hafa.

Blóðprufa var hins vegar ekki tekin og liggja því engin sýni fyrir.

Greina bæði líf- og efnissýni

Að sögn Elísabetar greinir RLE, sem starfar meðal annars fyrir lögreglu og aðrar opinberar stofnanir, bæði líf- og efnissýni. Segir hún rannsóknastofuna áður hafa fengið drykkjarsýni til athugunar út af ýmsum ástæðum, meðal annars til að athuga áfengisstyrk. Væri þá einnig hægt að leita eftir ólyfjan.

Hún kveðst þó ekki geta staðfest að lögregla hafi á einhverjum tímapunkti leitað til þeirra með drykkjarsýni í tengslum við nauðgunar- eða kynferðisbrotamál enda sé það oft þannig að brotaþolar leiti sér ekki aðstoðar fyrr en löngu eftir að brotið hafi átt sér stað. Eru þá að öllum líkindum engin drykkjarsýni fyrir hendi.

Hún segir þó ekkert koma í veg fyrir, af hálfu rannsóknarstofunnar, að veitingastaðir hafi samband við lögreglu með drykkjarsýni ef upp vakna grunsemdir um að átt hafi verið við drykki á staðnum. Geti stofan síðan tekið sýnin til rannsóknar.

mbl.is