Inga Sæland spyr: „Erum við dýravinir eða ekki?“

Inga Sæland formaður Flokks fólksins.
Inga Sæland formaður Flokks fólksins. Skjáskot/RÚV

Sorglegt er hve lengi blóðmerabúskapur hefur fengið að viðgangast á Íslandi. Orðspor Íslands bíður hnekki eftir að svissnesku dýraverndarsamtökin birtu heimildarmynd sína sem varpar ljósi á slæma meðferð á íslenskum hryssum við blóðtöku. Þetta segir Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, í samtali við mbl.is.

„Mér finnst þetta hryllilegt og gríðarlegt samfélagslegt tjón,“ segir hún.

Segir Ísland vera á pari við þriðja heims ríki

Ef ekki verður gripið tafarlaust til aðgerða gegn blóðmerahaldi  mun orðspor og ímynd Íslands verða fyrir óafturkræfu tjóni, að sögn Ingu.

„Við erum eina Evrópulandið í heiminum sem leyfir þessa starfsemi. Við erum semsagt á pari við þriðja heims ríki hvað þetta varðar og þetta eru gríðarlegir álitshnekkir fyrir okkur. Íslandsstofa er farin að fá pósta frá fólki erlendis frá sem segist aldrei ætla að heimsækja Ísland út af þessu.“

Inga mælti fyrir frumvarpi um bann við blóðmerahaldi 16. mars síðastliðinn, fyrir hönd Flokks fólksins auk tveggja þingmanna Pírata. Frumvarpið hlaut hins vegar litlar undirtektir á þingi og telur Inga að þar hafi þrýstihópar og hagsmunaöfl verið að baki.

„Í kjölfarið kom m.a. einn bóndi sem var í andsvörum við frumvarpið. Hann vildi meina að þetta væri nú ekki eins og við höfðum lagt fram en myndin sýnir í rauninni að allt sem við sögðum var satt og rétt.“

Bann við blóðmerahaldi verður áfram eitt af forgangsmálum Flokks fólksins …
Bann við blóðmerahaldi verður áfram eitt af forgangsmálum Flokks fólksins á þessu kjörtímabili. mbl.is/Rax

Hyggst leggja fram nýtt þingfrumvarp

Þá segir hún athyglisvert að Arnþór Guðlaugsson, framkvæmdastjóri Ísteka, sem einnig hafi andmælt frumvarpinu líkt og umræddur bóndi, láti ekki ná í sig eftir að heimildarmyndin kom út.

„Ísteka gaf frá sér yfirlýsingu þar sem fyrirtækið kveðst fordæma vinnubrögðin sem sjást í myndinni en á sama tíma eru Arnþór og þessi Baldur Eiðsson bóndi, sem reyndi að þvinga dýraverndarsamtökin út í skurð, í felum og láta ekki ná í sig en þeir voru báðir á staðnum þegar þessi dýraníð fór fram.“

Ísteka er líftæknifyrirtæki sem ber ábyrgð á blóðtöku hryssna á Íslandi. Blóðið er tekið úr fylfullum hryssum og unnið úr því hormón sem síðan er m.a. notað til að auka frjósemi svína til manneldis.

Inga hyggst leggja fram nýtt frumvarp um leið og nýtt þing kemur saman.

„Þetta verður eitt af forgangsmálum Flokks fólksins og nú kemur í ljós hver dýragæskan er hjá íslenskum kjörnum alþingismönnum. Hvort raunverulegur vilji sé hjá þeim til að vernda dýrin og vera málsvarar málleysingjanna. Erum við dýravinir eða ekki? Eða eru menn bara að gæta eigin hagsmuna, hugsa um botninn á sjálfum sér og passa að verða ekki óvinsælir hjá ákveðnum hópi kjósenda eins og oft hefur verið?“

Miklum fjármunum hefur verið eytt í sérstakt markaðsátak til að …
Miklum fjármunum hefur verið eytt í sérstakt markaðsátak til að kynna íslenska hestinn á erlendri grundu. Ljósmynd/mbl.is

Miklum fjármunum eytt í ímynd landsins

Á ári hverju eyðir Ísland miklum fjármunum í að draga fram jákvæða ímynd landsins á erlendri grundu. Blóðmerahald stórskaðar þessa ímyndi og hefur það verið fordæmt um heim allan, að því er greint frá í drögum að tillögu til þingsályktunar um breytingu á lögum um velferð dýra.

Hvernig sem á málið verði litið þurfi þó að koma til móts við bændurna sem gætu orðið af ákveðinni framfærslu verði starfsemin lögð niður, að sögn Ingu.

„Það er talið að það sé verið að taka allt að 40 lítra úr hverri hryssu frá sumri og fram á haust, þ.e. um 5 lítra sem teknir eru einu sinni í viku. Bændur eru að fá að meðaltali um þúsund krónur fyrir hvern líter og stundum meira. Fyrir 5 lítra eru þeir því að fá um 5.000 krónur.“

Framar öllu segir hún þó þurfa að gæta hagsmuna dýranna sem ekki geta gætt þeirra sjálf.

„Dýralæknir segir að þetta blóðmagn sé við hættumörk enda er verið að taka jafn mikið úr litlum íslenskum hryssum eins og úr risahryssum úti í heimi. Í stað þess að þakka hryssunum fyrir bljóðgjöfina með eplabita fá sumar þeirra hnefahögg beint á snoppuna eins og sést í myndinni. Þetta er bara viðbjóður.“

mbl.is