Landspítalinn ekki samkeppnishæfur

Ekki hefur tekið að semja um launaþróun.
Ekki hefur tekið að semja um launaþróun. mbl.is/Unnur Karen

Landspítalinn er ekki samkeppnishæfur hvað viðkemur launakjörum félagsráðgjafa að mati Steinunnar Bergmann, formanns Félagsráðgjafafélags Íslands.

Hún hefur verulegar áhyggjur af stöðu félagsráðgjafar á Landspítalanum. Þetta segir hún í samtali við Morgunblaðið.

„Félagsráðgjafafélag Íslands hefur undanfarin ár bent stjórnendum Landspítala á að laun félagsráðgjafa á spítalanum hafa dregist mjög aftur úr almennri launaþróun félagsráðgjafa hjá öðrum ríkisstofnunum og sveitarfélögum. Félagið fundaði með spítalanum yfir nokkurra ára tímabil til að ræða launasetningu og launaþróun félagsráðgjafa en laun félagsráðgjafa á spítalanum eru mun lægri en gengur og gerist hjá öðrum vinnuveitendum félagsráðgjafa. Viðræðurnar hafa verið án árangurs,“ segir Steinunn.

Staðan verði verri og verri

„Við höfum verulegar áhyggjur af stöðu félagsráðgjafar á Landspítalanum. Spítalinn hefur ekki treyst sér til að koma til móts við þær leiðréttingar sem við teljum nauðsynlegt að gerðar séu á stofnunarsamningi. Staðan verður bara verri og verri.“

Steinunn Bergmann.
Steinunn Bergmann.

Steinunn segir spítalann góðan vinnustað og því sorglegt að hann mæti fólki ekki launalega séð.

„Landspítalinn borgar lökustu launin, en það á auðvitað við um fleiri stéttir en félagsráðgjafa.

Mikil eftirspurn er eftir félagsráðgjöfum hjá sveitarfélögum, stofnunum ríkisins, félagasamtökum og á almennum markaði. Margir þeirra leita því á önnur mið til að eiga möguleika á betri launakjörum. Landspítalinn situr eftir af því að hann er ekki samkeppnishæfur um laun.

Það er litið á Landspítalann sem góðan og jákvæðan vinnustað. Hann hefur verið eftirsóttur sem vinnustaður þannig að það er sorglegt að hann nái ekki að mæta fólki launalega.“

Steinunn segir mikilvægt fyrir vinnuveitendur að borga góð laun þar sem einn af þeim þáttum sem ýta undir kulnun fólks í starfi sé að það upplifi sig ekki metið að verðleikum til launa.

„Það er mikilvægt að hafa í huga að einn þeirra stóru þátta sem ýta undir kulnun í starfi er að fólk upplifir sig ekki metið að verðleikum til launa.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »