Saup viljandi af drykk sem líklega var átt við

Grunur um byrlun ólyfjanar kom upp á Stúdentakjallaranum í gær.
Grunur um byrlun ólyfjanar kom upp á Stúdentakjallaranum í gær. mbl.is/Ómar Óskarsson

Rekstrarstjóri Stúdentakjallarans tók málin í sínar eigin hendur og saup af drykk sem talið var líklegt að búið væri að eiga við eftir að ung kona missti meðvitund á staðnum í gær. Í kjölfarið fann hann fyrir óeðlilegum áhrifum, sem staðfestu að miklu leyti grunsemdir hans.

Grunur um byrlun ólyfjanar kom upp á stúdentakjallaranum í gærkvöldi þegar að ung kona á veitingastaðnum féll í ómegin eftir að hafa neytt þar drykkjar og var lögregla og sjúkrabíll í kjölfarið kölluð til.

Þegar í ljós kom að ekki væri hægt að staðfesta byrlun nema konan færi á slysadeild í blóðprufu, ákvað Auðunn Orri Sigurvinsson rekstrarstjóri að fá sér sopa af drykknum til að sannreyna hvort um byrlun væri að ræða.

Bláedrú þegar hann drakk úr glasinu

„Lögregla tók ákvörðun um að þetta væri allt klappað og klárt og ég fylgdi síðan stúlkunni heim. Ég fékk mér ekki sopa fyrr en hún var komin heim. [...] Ég geymdi drykkinn upprunalega í svona einn klukkutíma eða tvo því ég hélt að lögreglan gæti gert eitthvað við hann er svo er víst ekki,“ sagði Auðunn og bætir við að þó nokkuð hefði verið eftir í drykknum þegar að hann lét ríða á vaðið.

Að sögn Auðuns fór hann að finna fyrir óeðlilegum áhrifum stuttlega eftir að hafa neytt drykkjarins, fann hann fyrir svima, hausverk og ógleði, sem væri ekki eðlilegt nema búið væri að eiga við drykkinn, enda var hann bláedrú þegar hann tók fyrsta sopann.

Hafði hann upprunalega ætlað að fara á Slysadeild í blóðprufu til að láta kanna hvort um byrlun ólyfjanar væri að ræða. Hins vegar hafi ástandið verið þannig eftir drykkinn að hann treysti sér ekki og fór því frekar heim.

Reyna að vera meira vakandi

Auðunn segir enga verkferla vera til staðar á Stúdentakjallaranum þegar grunur um byrlun kemur upp enda sé þetta í fyrsta skiptið sem að slíkt gerist á staðnum, að því er starfsfólk best veit. Hins vegar hafi starfsfólk verið vakandi fyrir slíkum tilfellum undanfarna daga í kjölfar umræðunnar sem hefur átt sér stað í samfélaginu.

„Við gerðum bara það eina í stöðunni sem við vissum af sem var að hringja í lögreglu og sjúkrabíl. [...] Við reynum að taka alltaf drykki til hliðar, fylgjast með ef fólk situr einsamalt og vera meira vakandi.“

Segir staðinn bera ábyrgð á öryggi gesta

Hann kveðst upplifa mikla ábyrgð sem rekstrarstjóri og því hafi verið erfitt að horfa upp á að ekki væri hægt að taka málið lengra.

„Þetta var svo mikið þrot. Mér leið svo óþægilega að vita ekki hvort þetta væri byrlun eða ekki,“ sagði Auðunn sem bætir þó við að tilraun hans í gær gæti í raun ekki staðfest neitt þar sem hann hefði ekki farið í blóðprufu. Ástandið hafi hins vegar talað sínu máli.

Er nú næsta skref að sækja efni úr eftirlitsmyndavélum og rýna í atvik gærkvöldsins. Ef upptökur láta eitthvað grunsamlegt í ljós verður hægt að leita með málið til lögreglu. Hins vegar hafi þau lítið milli handanna núna fyrst engar blóðprufur voru teknar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert