Sækja í brauðmylsnu og dansa á nóttunni

Ólafur Sigurðsson á vettvangi í gær, tilbúinn með tæki sín …
Ólafur Sigurðsson á vettvangi í gær, tilbúinn með tæki sín og tól í músaveiðarnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Talsvert hefur verið um músagang á höfuðborgarsvæðinu að undanförnu, rétt eins og raunin hefur verið í uppsveitum Árnessýslu eins og sagði frá í Morgunblaðinu í gær. „Um leið og kólnar og frost verður viðvarandi koma svona skot,“ segir Ólafur Sigurðsson hjá Meindýraeyðingu Reykjavíkur. Hann er sjálfstætt starfandi og hefur síðustu daga fengið fjölda útkalla frá fólki sem veit tæpast sitt rjúkandi ráð þegar mýsnar eru komnar inn á heimili þess.

Saddar og sælar

„Ferlið í þessu er oftast svipað; fólk skilur bílskúrs- eða þvottahúsdyr eftir opnar og þá eru smádýrin fljót til, hlaupa inn í hús og í eldhúsið. Fara þá í rusladallana undir vaskinum og komast í matarafganga. Slíkt er veisla hjá þeim. Mýsnar eiga sér svo hreiður í sökklunum undir eldhúsinnréttingunni og það er staðurinn sem við meindýraeyðar reynum sérstaklega að komast að til að uppræta vandann,“ segir Ólafur. Hann hvetur fólk til þess að loka útidyrum og þétta í geilar og göt sem nagdýrin geta skriðið í. Slík séu einföld húsráð.

„Þegar mýs eru komnar inn í hús finnast oft ummerki þeirra við brauðristar, til dæmis skítur frá þeim. Satt að segja eru mýs alveg sólgnar í sviðna mylsnuna sem þar er. Eftir slíkar veislur sjást líka stundum merki þess að mýsnar hafi yfir nóttina hreinlega dansað á eldhúsborðunum, saddar og sælar.“

Úthverfin kjörlendi músa

Hjá umhverfissviði Reykjavíkurborgar kannast menn við músafaraldurinn sem nú gengur yfir. „Þetta hefur verið áberandi að undanförnu og verður alltaf svo þegar kólnar skarpt í veðri. Annars má segja að síðastliðin fjögur ár hafi verið mikil músatíð í borginni, hvað sem veldur,“ segir Ólafur Ingi Heiðarsson meindýraeyðir. Hann sinnir einkum meindýravörnum í vesturhluta borgarinnar, þar sem rottur hafa á stundum verið skæðar. Mýsnar hafa hins vegar í meira mæli en áður látið á sér kræla í Vesturbæ og miðborginni. Segja má þó að Árbær, Grafarholt og Grafarvogur séu kjörlendi músa, enda eru byggðir þar í jaðri haglendis og skóga.

Vissi á veðurhvell nyrðra

Staðföst trú margra er að sé músagangur að hausti mikill verði veturinn harður. Um þetta eru til margar frásagnir, gamlar og nýjar. Þannig má nefna að í lok september síðastliðins kom hríðarskot á Norðurlandi. Sauðfé sem þá var komið af afrétti fennti í kaf, þótt flestu af því tækist raunar að bjarga. Hríðarskot þetta var ekki samkvæmt veðurspám, en kom Jóni Kristófer Sigmarssyni, bónda á Hæli í Húnavatnshreppi, ekki á óvart eins og hann lýsti í samtali við Morgunblaðið þá. Fyrir veðurhvell þennan höfðu Jón og Bergrún Ingólfsdóttir kona hans tekið eftir miklum músafjölda heima við bæ og voru þá sammála um að allra veðra væri von, eins og kom á daginn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »