Vatnshæðin miklu meiri en fyrir síðustu hlaup

Vatnajökull. Í forgrunni sjást Grímsvötn og þverhníptir hamrar Grímsfjalls.
Vatnajökull. Í forgrunni sjást Grímsvötn og þverhníptir hamrar Grímsfjalls. mbl.is/RAX

Áður en íshellan yfir eld­stöðinni Grím­svötn­um í Vatna­jökli tók að síga undanfarna daga, þá hafði hún í fleiri ár verið að lyftast upp.

Þetta höfðu mæl­ing­ar GPS-stöðvar sýnt fram á, en hún er staðsett ofan á jökl­in­um. Landris hefur einnig mælst í Gríms­fjalli sjálfu og hefur það stafað af kviku­söfn­un.

„Íshell­an hækk­ar fyrst og fremst vegna þess að leys­inga­vatn renn­ur inn í vötn­in,“ sagði Bene­dikt Gunn­ar Ófeigs­son, sér­fræðing­ur Veður­stof­unn­ar á sviði jarðskorpu­hreyf­inga, í sam­tali við mbl.is í liðnum september.

Skjálftavirkni farið smám saman vaxandi

Á síðasta ári hafði þensl­an í Gríms­fjalli náð sama marki og fyr­ir síðasta gos, sem varð árið 2011. Af þeirri ástæðu var litakóði fyr­ir flug­um­ferð yfir eld­stöðinni færður yfir í gult í lok sept­em­ber það ár, eða fyr­ir um fjórtán mánuðum.

Þensla vegna kvikusöfnunar hefur síðan þá aðeins haldið áfram, og er því meiri en fyrir gosið árið 2011, sem reyndist stórt. Sömuleiðis hefur óvenju mikið vatn safnast saman.

„Það ger­ir það að verk­um að þegar jök­ul­hlaup verður, þá mun eiga sér stað mjög snögg þrýstilétt­ing. Það get­ur svo komið af stað gosi, miðað við þau gögn sem við höf­um um fyrri gos í Grím­svötn­um,“ sagði Benedikt fyrir um tveimur mánuðum.

Skjálfta­virkn­in hafði þá að sama skapi farið smám sam­an vax­andi.

„Það er annað lang­tíma­merki sem við höf­um horft á, sem mögu­leg­an und­an­fara Grím­s­vatnagosa. Öll gögn benda því til þess að Grím­svötn séu til­bú­in að gjósa og að þau hafi verið það síðasta árið, ef ekki síðustu tvö.“

Kolgrátt hlaupvatn úr Grímsvötnum árið 2010.
Kolgrátt hlaupvatn úr Grímsvötnum árið 2010. mbl.is/RAX

Vatnsborðið ekki hærra frá því árið 1996

Síðast varð gos í kjölfar hlaups úr Grímsvötnum árið 2004. Vatnshæðin í vötnunum hefur á síðustu mánuðum mælst meiri en fyrir það gos, og því ætti þrýstiléttingin að verða meiri en var þá, eins og Benedikt vék að.

Morgunblaðið greindi frá því í september að vatnsborðið í Grímsvötnum hefði hækkað mikið. Og í raun ekki verið hærra frá því fyrir Gjálpargosið árið 1996.

Um 0,75 rúmkílómetrar af vatni höfðu þá safnast þar fyrir, að sögn Eyjólfs Magnússonar, vísindamanns við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands.

„Það hefur hækkað í vötnunum um 20 sentimetra á dag síðustu tvær vikur,“ tjáði Eyjólfur Morgunblaðinu. „Við erum að bíða eftir hlaupum en við vitum ekki almennilega hvenær þau skila sér. Vatnshæðin er komin langt umfram það sem við höfum séð í síðustu hlaupum.“

Síðan hélt vatnshæðin áfram að hækka og náði hámarki í síðustu viku eða nú um helgina, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni.

Hringvegurinn liggur um brú yfir Gígjukvísl.
Hringvegurinn liggur um brú yfir Gígjukvísl. mbl.is

Mikið tjón ólíklegt

Eyjólfur kvaðst telja ólíklegt að næsta hlaup myndi valda miklu tjóni þrátt fyrir að vera að líkindum umfangsmeira en þau sem sést hafa undanfarin ár. Sagði hann mannvirkin vera hönnuð til að þola mikið álag.

Miðað við fyrri hlaup má gera ráð fyrir að hlaupvatn komi fram við jökuljaðar í dag eða á morgun. Hlaupið muni ná hámarki á fjórum til átta dögum eftir það.

Við því er búist að væntanlegt jökulhlaup renni suður undir jökulinn, í gegnum Skeiðarárjökul og endi í farvegi Gígjukvíslar. Sú á rennur svo undir hringveginn á leið sinni til sjávar, suður af Skeiðarárjökli.

Ölfusá, hér til samanburðar.
Ölfusá, hér til samanburðar.

Tólf sinnum rennsli Ölfusár og meira til

Mælingar Veðurstofunnar á vatnsstöðunni í Grímsvötnum gefa til kynna að reikna megi með að hámarksrennsli hlaupsins muni nema um fimm þúsund rúmmetrum á sekúndu.

Til samanburðar þá má nefna að um Ölfusá, vatnsmestu á landsins, streyma um 400 rúmmetrar af vatni á sekúndu. Þrettán slíkar ár þyrfti til að toppa hámarksrennsli væntanlegs hlaups.

Sömu mælingar stofnunarinnar benda þó til að hlaup af þessari stærðargráðu hefði að öllum líkindum lítil áhrif á á mannvirki, það er vegi og brýr. Of snemmt sé þó að fullyrða um hvert umfang hlaupsins geti orðið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert