Vítamínsprauta fyrir Jöklarannsóknafélagið

Sjálfboðaliðar Jöklarannsóknafélags Íslands við mælingar á Drangajökli.
Sjálfboðaliðar Jöklarannsóknafélags Íslands við mælingar á Drangajökli. Ljósmynd/Haukur Sigurðsson

66°Norður hefur gengið til samstarfs við Jöklarannsóknafélagið og mun láta 25% af allri sölu í vefverslun renna til félagsins á morgun, föstudag, í stað þess að vera með sérkjör á svörtum föstudegi.

Markmiðið með samstarfinu er að standa vörð um íslensku jöklana og stuðla að aukinni vitundarvakningu um breytingarnar sem eru að eiga sér stað á þeim vegna hlýnunar í andrúmsloftinu. Áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi birtast meðal annars í sjáanlegum breytingum á jöklunum.

Styrkurinn eigi að skila áhugaverðum og markverðum árangri

Í samtali við mbl.is segir Magnús Tumi Guðmundsson, formaður Jöklarannsóknafélags Íslands, að samstarfið sé vítamínsprauta fyrir áhugamannafélög, eins og Jöklarannsóknafélagið er.

„Vegna þess að í slíkum félögum þá vinnur fólk áhugans vegna og það er mikils virði að finna að það sé stuðningur við þau verkefni sem að verið er að vinna með þessum hætti,“ segir Magnús og bætir við að styrkurinn ætti að skila mjög áhugaverðum og markverðum árangri.

Magnús Tumi Guðmunds­son, pró­fess­or í jarðeðlis­fræði.
Magnús Tumi Guðmunds­son, pró­fess­or í jarðeðlis­fræði. Ljósmynd/Almannavarnir

„Þetta eru mælingar sem hafa aldrei verið gerðar á Eyjafjallajökli eða Tindfjallajökli en þeir eru að mörgu leyti mjög áhugaverðir af því að hver jökull hefur sína stöðu miðað við afstöðu til strandar, afstöðu til úrkomu, mynsturs og slíks. Nú ætlum við að reyna að grípa tækifærið og reyna að nýta það að 66°Norður ætlar að styrkja og fara og mæla á þessum jöklum í fyrsta skipti.“

Áhugasamt fólk standist ekki mátið þegar slíkur styrkur fæst

Magnús segir að fyrirtækið hafi leitað til þeirra og athugað hvort að þetta væri eitthvað sem félagið væri til í. Jöklarannsóknafélagið sér fram á áhugaverðan ávinning sem hægt er að hrinda í framkvæmd með þessum hætti.

„Þetta fer ekkert í að borga neinum laun eða neitt svoleiðis heldur í að borga útlagðan kostnað við að gera út svona ferðir,“ segir hann.

„Það kosta tækin sem þarf að nota, farartækin, vélsleðar og það er kostnaður í öllu svona og einhvern veginn verður að mæta honum. Þegar það fæst svona styrkur þá er áhugasamt fólk sem stenst ekki mátið.“

mbl.is