Andlát: Eyþór Einarsson grasafræðingur

Eyþór Einarsson.
Eyþór Einarsson.

Eyþór Einarsson grasafræðingur lést þriðjudaginn 24. nóvember, 92 ára að aldri. Hann fæddist í Neskaupstað 8. febrúar 1929 og var sonur Gíslínu Ingibjargar Haraldsdóttur húsmóður og Einars Einarssonar sjómanns.

Eyþór lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1949, cand.phil. frá Háskóla Íslands 1950 og mag.scient.-prófi í náttúrufræði frá háskólanum í Kaupmannahöfn 1958. Að námi loknu fluttist hann aftur heim til Íslands og hóf störf sem deildarstjóri grasafræðideildar Náttúrufræðistofnunar Íslands frá 1. janúar 1959 og var forstöðumaður stofnunarinnar í samtals 14 ár. Hann starfaði alla sína starfsævi hjá Náttúrufræðistofnun Íslands til starfsloka 1999.

Eyþór vann við rannsóknir á æðplöntum, plöntulandafræði og gróðurfari Íslands frá árinu 1955. Hann lagði grunn að rannsóknum sem hófust 1961 á landnámi plantna og framvindu gróðurs í jökulskerjum í Vatnajökli. Auk þess fékkst hann við rannsóknir á sviði náttúruverndar einkum varðandi hugsanlegar breytingar á gróðurfari af völdum verklegra framkvæmda.

Eyþór sat í náttúruverndarráði í 31 ár og var formaður þess 1978-1990, var varaformaður stjórnar raunvísindadeildar Vísindasjóðs 1974-1978 og formaður 1978-1986. Hann var formaður Félags íslenskra náttúrufræðinga 1960-1962, formaður Hins íslenska náttúrufræðifélags 1964-1966 og 1976-1980. Eyþór var fulltrúi Íslands í náttúruverndarnefnd Evrópuráðsins 1963-1993 og formaður 1985-1986. Hann var kjörinn félagi New York Academy of Sciences 1982, félagi Vísindafélags Íslendinga 1987 og kjörinn heiðursfélagi Hins íslenska náttúrufræðifélags 1993.

Eyþór kvæntist Svandísi Ólafsdóttur kennara (1929-2013) 18. nóvember 1951. Þau eignuðust fjórar dætur, Margréti, Ingibjörgu, Sigríði Ólöfu og Þóreyju.

Útför Eyþórs fer fram frá Háteigskirkju 1. desember.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »