Bíða enn svara frá landlækni um GBS skimun

Drengurinn kom í heiminn eftir 33. vikna meðgöngu.
Drengurinn kom í heiminn eftir 33. vikna meðgöngu. Ljósmynd/Aðsend

Kona sem fæddi dreng í apríl á árinu segir læknamistök hafa orðið til þess að drengurinn veiktist alvarlega af GBS-bakteríunni og hlaut heilaskaða vegna þess. Vill hún nú að skimun fyrir GBS-bakteríunni á meðgöngu verði færð í lög hér á landi til að koma í veg fyrir að fleiri þurfi að ganga í gegnum það sama og fjölskylda hennar.

Drengurinn er nú með heilaskaða á sjón- og hreyfisvæði, auk þess sem hann er með mikla sjónskerðingu vegna skaða á sjóntaug sem tengist við auga. Karen Ingólfsdóttir, móðir drengsins, hefur borið upp erindið um að skimun við GBS-bakteríunni verði færð í lög við heilbrigðisráðherra og Embætti landlæknis.

Framgangur málsins hefur þó ekki verið mikill en heilbrigðisráðherra vísaði erindinu frá sér og til landlæknis sem hefur einungis gefið þau svör að embættið sé búið að móttaka skjölin. Um tveir mánuðir eru liðnir frá því að lögfræðingur hjónanna sendi skýrslu á embættið. 

Var skimuð en vissi það ekki

Karen Ingólfsdóttir og Ragnar Hansen eignuðust lítinn dreng þann 3. apríl fyrr á árinu. Fæðingin gekk ekki snurðulaust fyrir sig en strax á 27. viku meðgöngu þurfti að stöðva það að Karen myndi fara af stað. „Í kjölfarið byrjaði ég að verða mikið veik. Ég var með mikla samdrætti, það byrjaði að blæða, púlsinn hans var rosalega upp og niður. Mér var alltaf sagt að þetta væri allt í lagi og ég væri ekki komin í fæðingu,“ segir Karen í samtali við mbl.is.

Á þessum tíma voru ýmis sýni tekin og var þar á meðal var skimað fyrir GBS-bakteríunni, sem Karen reyndist jákvæð fyrir. Upplýsingarnar um það sýni bárust hins vegar aldrei foreldrunum, voru þau því ekki meðvituð um að Karen væri GBS-beri eða um þá hættu sem gæti stafað að ófæddu barni þeirra vegna þess.

Ljósmynd/Aðsend

Fékk aldrei sýklalyf

Á 33. viku kom drengurinn í heiminn með hraði og af óútskýrðum ástæðum var Karen ekki gefið sýklalyf við GBS-bakteríunni rétt eins og venjan er þegar konur með staðfest GBS-smit fæða barn. Fæðingin gekk erfiðlega og þegar drengurinn var fjögurra daga gamall veiktist hann alvarlega var fastur í öndunarvél í rúma viku.

Það var þó ekki fyrr en átta dögum eftir fæðingu að Karen fær þær fregnir að hún sé GBS-beri sem hefði líklega orsakað þessi veikindi meðal drengsins.  „Ef ég hefði fengið sýklalyf og hann hefði veikst þá hefði hann ekki veikst svona alvarlega eins og gerðist í okkar tilfelli. Þá væri hann væntanlega ekki með þennan heilaskaða og ekki þetta mikið veikur.“

Segir hún heilbrigðiskerfið hafa brugðist sér með því að halda aftur af þessum upplýsingum og veita henni ekki fullnægjandi meðferð.

Konur almennt ekki meðvitaðar um GBS

Karen heldur úti opnum Instagram-reikningi þar sem hún sýnir fylgjendum frá daglegu lífi fjölskyldunnar og fræðir fólk um alvarleika þeirra veikinda sem geta hlotist af bakteríunni.

Af hennar reynslu að dæma eru konur á meðgöngu almennt ekki meðvitaðar um GBS-bakteríuna, að þær geti verið smitberar eða hvaða veikindum hún getur ollið. „Ég hef fengið skilaboð frá mörgum konum sem hafa ekki grun um að það væri hægt að fá þetta og hversu alvarlegt þetta er.“

Vill Karen bæta úr þessu. Telur hún meðal annars skynsamlegt að auka upplýsingagjöf til kvenna á meðgöngu um bakteríuna og að öllum konum verði gefinn upp sá kostur að láta skima fyrir GBS-bakteríunni.

Heilbrigðisráðherra vísar á landlækni

Karen hefur vísað erindinu til landlæknis en eins og staðan er núna hefur hún eingöngu fengið þau svör að málið sé komið á borð embættisins. Þá hefur hún borið erindið upp við heilbrigðisráðherra sem vísaði því einnig til landlæknis.

Þrátt fyrir að hafa ekki fengið nein frekari svör frá ráðherra eða landlækni, segir Karen þá lækna sem hún hefur rætt við taka vel í tillögur hennar. Kveðst hún einnig vita til þess að spítalinn á Akranesi og í Keflavík standi vel að upplýsingagjöf um þetta málefni og eru konur á meðgöngu almennt skimaðar þar fyrir bakteríunni. Sé því fáránlegt að ekki sé haft meira eftirlit með þessu á Kvennadeild Landspítalans, sem er aðal fæðingardeild landsins.

mbl.is