Dýraverndarsamtökin hvergi nærri hætt

Sabrina Gurtner, verkefnastjóri hjá svissnesku dýraverndarsamtökunum Ani­mal Welfare Foundati­on/​Tierschutzbund Zürich …
Sabrina Gurtner, verkefnastjóri hjá svissnesku dýraverndarsamtökunum Ani­mal Welfare Foundati­on/​Tierschutzbund Zürich (AWF/TSB). Ljósmynd/Aðsend

Svissnesku dýraverndarsamtökin Ani­mal Welfare Foundati­on/​Tierschutzbund Zürich (AWF/TSB) ætla ekki að gefast upp í baráttu sinni gegn blóðmerabúskap fyrr en bann hefur verið lagt við starfseminni. Þetta segir Sabrina Gurtner, verkefnastjóri samtakanna, í samtali við mbl.is.

Vildu vekja athygli almennings og það tókst

Innt eftir því segir hún ánægjulegt hve mikla athygli herferð samtakanna hefur vakið á Íslandi. Markmið samtakanna hafi m.a. verið að vekja athygli almennings á málinu og það hafi tekist.

„Það eru aðallega Íslendingar sem hafa skrifað athugasemdir við myndina á Youtube og þeim var greinilega brugðið að sjá hvernig komið er fram við íslenska hestinn sem þeim þykir mörgum hverjum mjög vænt um.“

Þá segist hún vera sérstaklega ánægð með Ingu Sæland, formann Flokks fólksins, sem hyggst mæla með frumvarpi um bann við blóðmerabúskap í annað sinn þegar nýtt þing kemur saman. 

„Það er einmitt það sem við erum að berjast fyrir og vonum við að frumvarpið hljóti góðan gaum á þinginu.“

MAST hefur ekki leitað til samtakanna

Matvælastofnun hefur hafið rannsókn á heimildarmyndinni umræddu og hyggjast starfsmenn stofnunarinnar ætla að vanda til verka, að því er Sigríður Björnsdóttir, sérgreinadýralæknir hrossa hjá MAST greindi frá í samtali við mbl.is.

MAST hefur þó ekki falast eftir upplýsingum frá dýraverndarsamtökunum sem standa að myndinni, segir Sabrina innt eftir því.

„Ég er eiginlega hissa að þau hafi ekki haft samband við okkur því við höfum allar upplýsingar um staðsetningu þessara bæja sem koma fram í myndinni og þau vinnubrögð sem viðhöfð eru þar. Upplýsingar sem gætu klárlega komið þeim að góðum notum við rannsóknina.“

Hafið þið íhugað að hafa sjálf samband við MAST?

„Já, við höfum gert það en við viljum bíða og sjá hvernig þau bregðast við þessu. Hvort þau séu raunverulega að rannsaka málið eins og þau hafa sagst ætla að gera. Ef þeim er alvara með það þá hljóta þau samt að hafa samband við okkur á einhverjum tímapunkti.“

Upplýsa ESB um starfsemina á Íslandi

Samtökin eru þó hvergi nærri hætt í baráttu sinni gegn blóðmerabúskap en þau hafa nú þegar hleypt af stokkunum annarri herferð í Evrópu og hyggjast skora á framkvæmdastjórn Evrópusambandsins að stöðva innflutning og framleiðslu á PMSG, hormóns sem fengið er úr blóði fylfullra hryssna og notað er í framleiðslu á frjósemislyfjum fyrir önnur dýr.

„Við munum upplýsa stjórnina um starfsemina og nota þær upplýsingar sem við höfum frá Íslandi sem dæmi um skaðsemi hennar. Um leið og fjölmiðlar hætta að greina frá málinu fer allt í venjulegan farveg. Við verðum því að halda uppi pressunni og munum ekki hvílast fyrr en bann verður lagt við framleiðslu og innflutningi á PMSG.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert