„Ég passa ekki alveg inn í kassana“

Starf Íslensku kirkjunnar í Noregi birtist með ýmsum hætti og …
Starf Íslensku kirkjunnar í Noregi birtist með ýmsum hætti og er tónlist þar ríkulegur þáttur svo sem sjá má af því sem fram undan er hjá kirkjunni á komandi aðventu. Ljósmynd/Aðsend

„Það var bara langt og ringlað ferli,“ segir séra Inga Harðardóttir glettnislega, sóknarprestur Íslensku kirkjunnar í Noregi, innt eftir því hvernig leið hennar hafi á sínum tíma legið í guðfræðinám við Háskóla Íslands, en séra Inga er tiltölulega nýtekin við brauði sínu í Ósló, það gerði hún á haustdögum 2019, tíma sem ef til vill mætti kalla kortéri fyrir Covid.

„Ég var ekki ein af þeim sem vissu nákvæmlega hvað þau langaði að gera, ég var alltaf að byrja og hætta og prófa ýmislegt annað, en svo sá ég að lokum að í guðfræðinni sameinaðist svo margt sem ég hafði áhuga á og svo bara endaði ég þar,“ segir séra Inga, sem er Reykvíkingur að uppruna og starfaði árum saman við æskulýðsstarf, samhliða námi sínu í Kópavogskirkju og að því loknu í Hallgrímskirkju, auk þess sem Fríkirkjan í Hafnarfirði fékk að njóta krafta hennar.

Fékk vinnuna með þriggja daga gamalt barn

„Ég er frekar flókin hvað þetta varðar, ég passa ekki alveg inn í kassana,“ segir presturinn í tilraun sinni til að útskýra starfsferilinn fyrir blaðamanni, en kveður málin þó hafa einfaldast töluvert eftir að námi lauk árið 2012, eftir það hafi Hallgrímskirkja fyrst og fremst verið hennar vinnustaður. „Ég er mjög þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að sinna þessu starfi, mér finnst svo gott að vinna við eitthvað skapandi með börnum og unglingum, og svo er bara svo gaman að syngja með kornabörnum í Krílasálmum, tala um lífið og tilveruna við fermingarbörnin og leika sér í barnastarfinu.“

„Það var bara langt og ringlað ferli,“ segir séra Inga …
„Það var bara langt og ringlað ferli,“ segir séra Inga Harðardóttir af því hvernig leið hennar lá í guðfræðina við Háskóla Íslands, enda alkunna að sumir vegir eru órannsakanlegir. Ljósmynd/Freydís Heiðarsdóttir

Hún sótti á sínum tíma um stöðu æskulýðsfulltrúa við Hallgrímskirkju. „Ég fór gegnum það ferli kasólétt og fékk vinnuna þegar barnið var þriggja daga gamalt svo yngsti sonurinn var tekinn með í þá vinnu,“ rifjar séra Inga upp af fyrstu skrefum sínum eftir útskriftina, en hún er þriggja barna móðir, gift Guðmundi Vigni Karlssyni tónlistarmanni og búa þau í norsku höfuðborginni.

Þangað lá leiðin fyrir rúmum tveimur árum, sem fyrr segir, þá fýsti guðfræðinginn að taka næsta skref í lífinu og sótti um stöðu prests Íslenska safnaðarins í Noregi þar sem séra Þórey Guðmundsdóttir þjónaði þá sem afleysingaprestur. „Mér fannst ég vera búin að fullnýta mína krafta í æskulýðsstarfinu og langaði að spreyta mig á prestshlutverkinu, ég frétti að það vantaði prest hér, mér fannst það spennandi og ég fékk að koma í heimsókn hingað og prófa,“ segir séra Inga frá.

Að vera til staðar fyrir Íslendinga fjarri heimahögum

Hún kveðst hafa hrifist af verkefninu frá fyrstu byrjun og þótt það í senn spennandi, krefjandi og margþætt svo hún lét slag standa og tók við brauðinu. Ætli munurinn á kirkjulegum störfum sé mikill á fósturjörðinni og utan hennar?

„Já, á því er talsverður munur,“ svarar séra Inga umhugsunarlaust. „Við erum ekki með kirkju og ekki með fólk sem er bundið við einn stað, eða eitt hús, eins og gildir um kirkjur á Íslandi, sem sinna sínu nærumhverfi að mestu leyti. Við þjónum öllum Noregi og við lítum líka á það þannig að okkar starf sé ekki eingöngu trúarlegt heldur einnig samfélagslegt, það er að segja að vera til staðar fyrir Íslendinga fjarri heimahögum,“ segir presturinn og kveður Íslendinga í Noregi duglega við að leita til prests síns.

Í Ólafíustofu í Ósló er dregur nafn sitt af Ólafíu …
Í Ólafíustofu í Ósló er dregur nafn sitt af Ólafíu Jóhannsdóttur sem stundum var nefnd móðir Teresa norðursins og lifir enn í hugum Óslóarbúa sem konan er hjúkraði dætrum götunnar. Ljósmynd/Aðsend

„Þeir eru það, eða það er allt að koma alla vega. Nú eru auðvitað búnir að vera skrýtnir tímar. Ég náttúrulega kom bara haustið 2019 og tók þá við starfi, sem hafði verið í millibilsástandi um stund, svo mér finnst þetta hafa verið ákveðið slönguspil síðan ég byrjaði, maður er á byrjunarreit og fer svo nokkur skref áfram, þá kemur Covid og allt í einu er maður aftur kominn á byrjunarreit í uppbyggingu og að mynda tengsl við fólk. Aðaláskorunin núna er að byggja þessi tengsl aftur upp og viðhalda þeim,“ segir séra Inga af þeim áskorunum, sem henni hafa mætt á veginum.

Líflínur til fólks í einangrun

Eins og víða um heim setti heimsfaraldurinn flest svið mannlegrar tilveru úr skorðum og hefur andlega sviðið ekki heyrt þar til neinna undantekninga, kannski síst af öllu. Séra Inga lítur til baka á liðin misseri og segist ákaflega stolt af teyminu á bak við íslensku kirkjuna í Noregi. „Við fórum bara á fullt við að hugsa upp allar leiðir sem okkur komu í hug til að kasta líflínum til fólks í einangruninni,“ segir hún frá, „við reyndum bara að nota hugmyndaflugið og tæknina eins vel og við gátum og það var eiginlega bara mjög mikið að gera þótt við fengjum ekki að hittast, við vorum bara í því að búa til efni, sem fór svo á netið, fyrirlestra, sunnudagaskóla, fjölskyldustundir og jafnvel prjónakvöld, þetta fór allt fram gegnum netið,“ segir séra Inga og kveður þau starfsfólk íslensku kirkjunnar hafa lært gríðarmargt á starfinu í faraldrinum.

Safnaðarstarfið tekur á sig ýmsar myndir og ekkert því til …
Safnaðarstarfið tekur á sig ýmsar myndir og ekkert því til fyrirstöðu að tendra varðeld í myrku skóglendi um aftanskæru. Ljósmynd/Aðsend

Sóknarbörnin hafi kunnað vel að meta þótt í einhverjum tilfellum hafi tekið tíma að læra á nýja tækni, en hjá séra Ingu er allur Noregur undir, þar sem Íslenska kirkjan í Noregi þjónar, eins og nafnið gefur til kynna, öllu landinu. „Ég fer þangað sem þarf að fara að skíra og gefa saman hjón, og svo erum við í því að byggja upp reglubundið starf um allt landið, við erum mjög spennt fyrir því að prófa nýja hluti og halda áfram að kynnast fólki hér,“ segir séra Inga.

Margt fram undan á aðventunni

Aðspurð kveður Inga samskiptin góð við aðra íslenska presta í Noregi, sem starfa fyrir norsku kirkjuna, henni hafi þótt dýrmætt að geta leitað til þeirra, svo sem hvað þekkingu á þeirra heimabyggðum snertir þótt ekki sé um formlegt samstarf að ræða. „Þarna ríkir vinabragur og kollegahugur.“

Ýmislegt er fram undan hjá íslensku kirkjunni nú þegar aðventan stendur fyrir dyrum. „Á sunnudaginn erum við með aðventuhátíð hér í Ósló þar sem Ískórinn kemur fram, Inga Þyri Þórðardóttir söngkona, Ólína Ákadóttir, Íris Björk Gunnarsdóttir sópransöngkona ásamt litla barnakórnum, sem heitir Litla-Laffí [í höfuðið á Ólafíu Jóhannsdóttur, Laffí, sem meðal annars kom á fót heimili fyrir nauðstaddar konur í Ósló á öndverðri 20. öldinni].

Séra Inga segir kórónuveirufaraldurinn hafa verið krefjandi tíma en lærdómsríkan. …
Séra Inga segir kórónuveirufaraldurinn hafa verið krefjandi tíma en lærdómsríkan. Teymið hennar hjá söfnuðinum hafi lagt sig í framkróka við að gera Íslendingum í Noregi dvölina í einangrun og sóttkví sem bærilegasta meðal annars með aðstoð lýðnetsins. Ljósmynd/Aðsend


Svo förum við teymið héðan frá Ósló til Bergen, Stavanger, Kristiansand, Sandefjord og Þrándheims. Við köllum þetta jólahátíðir af því að mér finnst mikilvægt að við mætum þörfum hvers staðar fyrir sig, sem eru misjafnar, sums staðar er kór búinn að æfa upp prógram, annars staðar vill fólk syngja jólalögin og við hittumst ýmist í kirkju, félagsheimilum eða úti, höldum hlýlega helgistund og svo er jólaball á eftir í samstarfi við Íslendingafélögin og kórana á hverjum stað fyrir sig. Við viljum aðallega vera opin og sveigjanleg og mæta fólkinu þar sem það er statt,“ segir séra Inga Harðardóttir, sóknarprestur Íslensku kirkjunnar í Noregi, um starfið meðal Íslendinga hjá frændþjóðinni í Noregi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »