Gripið til 285 milljóna króna niðurskurðar

mbl.is/Kristinn Magnússon

Þjóðkirkjan hefur glímt við alvarlegan fjárhagsvanda og er nú gert ráð fyrir að halli verði á rekstri kirkjunnar upp á um 170 milljónir króna á næsta ári. Grípa á til niðurskurðar sem nemur um 285 milljónum króna. „Mikilvægt er að allir söfnuðir átti sig á stöðu mála. Um sársaukafullar aðgerðir er að ræða sem kirkjufólk horfist í augu við um þessar mundir,“ segir í umfjöllun um þessi mál á vef kirkjunnar en fjárhagsáætlun þjóðkirkjunnar fyrir næsta ár var samþykkt á kirkjuþingi, sem fór fram fyrr í þessari viku.

Um var að ræða framhald á störfum kirkjuþingsins sem frestað var í október sl. en þar voru fjármál þjóðkirkjunnar til umræðu og fjárhagsáætlun upphaflega lögð fram en sérstakri fjárhagsnefnd var falið að fara yfir málið. Lagði hún ýmsar breytingar og tillögur um hagræðingu fyrir þingið sem kom saman í þessari viku og voru þær samþykktar.

Í upphaflegri fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir rekstrarhalla upp á 465 milljónir. Fram kemur í nefndaráliti fjárhagsnefndarinnar að ekki hafi tekist að ná fram jöfnuði gjalda og tekna í meðförum nefndarinnar, „en með margvíslegum og oft sársaukafullum niðurskurði tókst að ná rekstrahallanum niður í 175 milljónir. Fjárhagsnefnd bendir á að afar brýnt er að ná jafnvægi í fjármálum þjóðkirkjunnar og telur óhjákvæmilegt að því markmiði verði náð á næstu tveimur árum,“ segir í nefndarálitinu. Eru allir þeir sem koma að starfi kirkjunnar hvattir til að gæta ýtrasta aðhalds í fjármálum og leita allra leiða til hagræðingar. Þá á að endurskoða allt starfsmannahald kirkjunnar og leita hagræðingar enda nemi launagreiðslur um það bil 77% af heildartekjum kirkjunnar.

Fækka stöðugildum

Ljóst sé vegna fjárhagsstöðunnar að á næsta ári verði að leita allra leiða til að fækka stöðugildum starfsmanna þjóðkirkjunnar. „Fjárhagsnefnd bendir á, að til þess að fjármagna þann hallarekstur sem fyrirsjánlegur er á næsta ári þarf að eiga sér stað áframhaldandi hagræðing á fasteignasviðinu og jafnframt einhver sala eigna,“ segir í áliti nefndarinnar um fjárhagsáætlunina.

Unnið hefur verið að endurskipulagningu á rekstri þjóðkirkjunnar og kom fram fyrr á þessu ári að halli á rekstri kirkjunnar nam 654 milljónum á árinu 2020. Nú er gert ráð fyrir að á yfirstandandi ári verði hallinn um 91 milljón kr. og 175 millj. kr. á því næsta eins og fyrr segir. Telja fulltrúar þjóðkirkjunnar mjög brýnt að fá leiðréttingu á sóknargjöldum til að styrkja sóknir landsins.

Skoða skiptingu prestakalla

Lagt var fyrir þingið nefndarálit og breytingartillaga við tillögu sem lá fyrir um stofnun starfshóps til að skilgreina þörf fyrir presta og djákna vegna vígðrar grunnþjónustu þjóðkirkjunnar á landsvísu. Fóru fram miklar umræður um málið en fjárhagsnefndin taldi brýnt að skoðun á þjónustuþörf í grunnþjónustu kirkjunnar verði unnin eins hratt og framast sé unnt.

Var samþykkt á þinginu að stofnaður verði starfshópur er skilgreini þörfina fyrir þjónustu djákna, presta, prófasta og vígslubiskupa. Skila á skýrslu til kirkjuþings á næsta ári og því næst á að endurskoða skiptingu landsins í starfseiningar, prófastsdæmi, prestaköll og/eða samstarfssvæði.

Samskipta- og ímyndarstefna

Meðal mála sem afgreidd voru á þinginu í vikunni var tillaga um stefnumótun í samskipta-, ímyndar- og kynningarmálum þjóðkirkjunnar. Pétur G. Markan biskupsritari segir að í framhaldi af þessari samþykkt verði nú haldið í þessa vegferð. „Fyrsta skref er að undirbúa viðmikla könnun þar sem fjölbreytt trúarþörf Íslendinga, væntingar til þjóðkirkjunnar og hvernig þjónustu kirkjunnar fólk kann að kjósa sér verður meðal annars mæld og könnuð,“ segir hann. Allt sé þetta til þess gert að mæta þjóðinni á þeim stað sem hún er á og laga starfið að þörfum þjóðarinnar en ekki öfugt.

Pétur segir að um afar spennandi verkefni sé að ræða sem lýsi þeim tímamótum sem þjóðkirkjan sé á og þeirri björtu framtíð sem blasi við henni undir forystu biskups Íslands.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert