Landsréttur staðfestir 747 milljóna dóm yfir OR

Höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur.
Höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Landsréttur hefur staðfest dóm héraðsdóms þess efnis að Orkuveitu Reykjavíkur beri að greiða Glitni holdco 747,3 milljónir auk dráttarvaxta síðustu 12-13 ár. Þá var Orkuveitunni gert að greiða Glitni 2 milljónir í málskostnað fyrir Landsrétti til viðbótar við 15 milljónir fyrir héraðsdómi.

Í mál­inu var tek­ist á um átta af­leiðusamn­inga sem Orku­veit­an gerði við Glitni á ár­un­um 2002 til 2008. Glitn­ir krafðist greiðslu vegna samn­ing­anna upp á um 747 millj­ón­ir, en Orku­veit­an taldi að ógilda ætti samn­ing­ana þar sem Glitn­ir hafi verið ógjald­fær. Var meðal ann­ars við héraðsdóm vísað til brota stjórn­enda bank­ans á ár­un­um fyr­ir hrun.

Fyrir Landsrétti breytti Orkuveitan vörnum sínum og byggði meðal annars á því að Glitnir væri ekki lengur eigandi þeirra fjármálagerninga sem málið ætti rætur sínar í. Taldi Orkuveitan að Glitnir hefði framselt þessa samninga til íslenska ríkisins árið 2015 sem hluta af stöðugleikaframlagsgreiðslu sinni.

Þá vísaði Orkuveitan til þess að Glitnir hefði þegið fébætur frá endurskoðunarfyrirtækinu PwC ehf. vegna tjóns er starfsmenn endurskoðunarfyrirtækisins hefðu valdið Glitni á árunum 2007 til 2008 í aðdraganda efnahagshrunsins. Sáttin milli Glitnis og PwC var gerð árið 2013 og féll Glitnir frá öllum kröfum á hendur PwC. Upphæðin kom hins vegar ekki fram, en í dómsmáli þrotabús Landsbanka Íslands gegn Sigurjóni Árnasyni, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans, kom fram að PwC hefði greitt Landsbankanum 1,1 milljarð í sambærilegu máli. Glitnir féllst ekki á að leggja fyrir upplýsingar um bótaupphæðina við meðferð máls Orkuveitunnar.

Í dómi Landsréttar segir að samkvæmt yfirlýsingu Seðlabankans, fjármála- og efnahagsráðuneytisins og ríkisendurskoðunar verði að telja að eiginlegt framsal á afleiðusamningum til íslenska ríkisins hafi ekki átt sér stað. Þá er tekið fram að ekki hafi tekist að færa sönnur á að þær fébótagreiðslur sem PwC hafi greitt Glitni hafi falið í sér greiðslu á kröfum samkvæmt þeim afleiðusamningum sem deilt sé um í þessu máli.

Landsréttur tekur svo undir með héraðsdómi að Orkuveitan hafi verið með mikla þekkingu á afleiðusamningum og hafi áður gert fjölda slíkra. Þá hafi innan vébanda Orkuveitunnar stafað sérstök áhættunefnd sem hafi sérstaklega fylgst með áhættuskuldbindingum í rekstri og hafi átt að gera sér fulla grein fyrir efni samninganna.

Staðfestir Landsréttur þar með dóm héraðsdóms, en fyrir héraðsdómi hafði meðal annars verið tekist á um hvort veita ætti Orku­veit­unni aðgang að gögn­um úr Glitni um tólf fyr­ir­tæki sem sum hver tengd­ust eða voru í eigu Werners-fjöl­skyld­unn­ar. Héraðsdóm­ur féllst ekki á þá kröfu, en Hæstirétt­ur heim­ilaði aðgang Orku­veit­unn­ar að gögn­un­um. Voru sum fé­lög­in meðal stærri skuld­ara Glitn­is. Meðal ann­ars var um að ræða fé­lög­in Svart­háf og Vafn­ing og lán Glitn­is til Lyf og heilsu, Rák­ungs, Milest­one og L&H eign­ar­halds­fé­lags, en öll fé­lög­in tengd­ust fjöl­skyld­unni.

Samhliða þessum dómi féll annar dómur í dag þar sem þrotabú Mainsee holding ehf krafðist þess að fá rift greiðslu skuldar upp á 6,7 milljónir evra (um 1,1 milljarði króna) sem fyrirtækið hafði greitt Glitni. Líkt og í héraðsdómi sýknaði Landsréttur Glitni af kröfunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert