Segir grafið undan ræktunarstarfi sínu

Baldur Eiðsson, hrossaræktandi í Lindartúni í Landeyjum.
Baldur Eiðsson, hrossaræktandi í Lindartúni í Landeyjum. Ljósmynd/Aðsend

Baldur Eiðsson, hrossaræktandi í Landeyjum, er einn þeirra manna sem nafngreindur var í heimildarmynd svissneskra dýraverndarsamtaka sem sýnir illa meðferð á íslenskum hrossum við blóðtöku. Hann hefur nú gefið frá sér yfirlýsingu þar sem hann sakar þá sem standa að myndinni um að reyna að grafa undan ræktunarstarfi hans.

Fóru um land hans og útihús í óleyfi

„Í myndinni er ég sérstaklega nafngreindur þótt ekki eigi ég hlut að máli í þeim atvikum sem hafa helst verið til umræðu heldur fyrir að segja fólki að koma sér í burtu, fólki sem ég vissi engin deili á og hafði farið þrívegis um land mitt og útihús í óleyfi.

Fólkið lætur ekki duga að nafngreina mig sérstaklega fyrir það og þar með tengja mig við hvert það atvik myndarinnar sem þeim þykir ámælisvert heldur reynir það auk þess að grafa undan ræktunarstarfi mínu sem ég hef náð miklum árangri og nefna þekktasta hestinn frá mér sérstaklega,“ segir Baldur í yfirlýsingunni.

Hann segir atvik sem sjást í myndinni umræddu eigi ekki að líðast í nokkurri starfsemi en bendir um leið á að af margra klukkustunda upptökum séu aðeins nokkrar sekúndur sýndar og það svo notað til að alhæfa um alla starfsemina.

„Engin starfsemi er fullkomin“

Sjálfur segist hann hafa verið talsmaður gegnsæi og eftirlits með greininni enda viti hann að á ýmsu geti gengið þegar stórgripir eru teknir í bás í fyrsta skipti og að mikilvægt sé að verklag sé eins og best verði á kosið.

„Ég tel vert að halda því til haga að tölur MAST sýna að skráð slys og veikindi í þessu búfjárhaldi er með því allra lægsta sem þekkist.“

Þar að auki segist hann leggja mikla áhersla á nærgætni gagnvart dýrunum og hafi því þótt leitt að horfa upp á frávik frá því. Þá segir hann endurskoðun á öllum verkferlum og aðferðum í starfsemi hans nú þegar hafin.

Engin starfsemi er fullkomin og það má alltaf gera betur. Ég fagna umræðunni og vona hún verði til aukinnar fagmennsku í greinni því mér þykir vænt um hrossin mín líkt og öllum þeim sem ég þekki sem stunda hrossarækt.“

mbl.is

Bloggað um fréttina