Silkihúfa Íslands var í moldinni á Þingeyrum

Silkihúfan.
Silkihúfan.

Húfa úr flaueli með blúndum sem eru kniplaðar úr silkiþræði og er frá 17. öld fannst við fornleifauppgröft á Þingeyrum nú í sumar. Yfir vafa þykir hafið að húfan hafi verið í eigu Jóns Þorleifssonar klausturhaldara, því samliggjandi húfunni í moldinni voru meðal annars innsiglishringur hans og skjaldarmerki. Þá eru einhyrningar eins þeir sem sjást á innsiglinu einkennandi fyrir ætt Jóns.

Vitnisburður um tísku

Jón Þorleifsson var staðarhaldari á Þingeyrum seint á 17. öldinni og lést á þrítugsaldri árið 1683. „Þetta er merkur fornleifafundur sem vitnar um tísku síns tíma,“ segir Steinunn Kristjánsdóttir fornleifafræðingur í samtali við Morgunblaðið. Fornleifarannsóknirnar á Þingeyrum í Austur-Húnavatnssýslu hófust árið 2016 og hafa verið undir verkstjórn Steinunnar, sem hefur rannsakað rústir margra fleiri klaustra á landinu og ritað um þau efni. Í sumar lögðu vísindamenn sig sérstaklega eftir því að finna minjar og merki um handritagerð á Þingeyrum, en þekkt er að fyrr á öldum hafi tíðkast að skrá þar fornar sögur á skinnhandrit.

Flauelið er fallegt

Höfuðfat Jóns Þorleifssonar var eftir rannsókn sumarsins flutt til á Þjóðminjasafn Íslands. Þar hefur Sandra Sif Einarsdóttir forvörður hreinsað gripinn og í ljós er komin mikil gersemi.

„Flauelið er fallegt og þótti það líka fyrr á tíð. Fjöldi málverka og teikninga er til frá fyrri öldum sem sýna yfirstéttarfólk með svona húfur, þar sem silkiþræðirnir eru áberandi. Geta má sér til þess til að einmitt í þessu liggi og felist uppruni orðsins silkihúfa,“ segir Steinunn um þennan merka fornleifafund.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert