Til skoðunar að einungis hluti barna fái bóluefni

Til skoðunar er að bjóða eingöngu ákveðnum hópi barna á …
Til skoðunar er að bjóða eingöngu ákveðnum hópi barna á aldrinum 5 til 11 ára bóluefni Pfizer. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir sóttvarnayfirvöld ekki hafa tekið ákvörðun um hvort eða hvenær hefja eigi bólusetningu barna á aldrinum 5 til 11 ára hér á landi. Hann segir hugsanlegt að sóttvarnayfirvöld muni skila niðurstöðu undir lok næstu viku. Er þá enn til skoðunar hvort að bjóða eigi öllum börnum bóluefnið eða einungis ákveðnum hópi.

„Það er eins og með aðra hópa, á að bjóða börnum sem eru með ákveðna undirliggjandi sjúkdóma eða á að bjóða öllum börnum bóluefnið. Það er bara hluti af ákvörðuninni og ferlinu,“ sagði Þórólfur í samtali við mbl.is.

Búast við bóluefninu undir lok desember

Í gær heimilaði Lyfjastofnun Evrópu notkun á bóluefninu Comirnaty frá Pfizer-Bi­oNTech við bólusetningu barna á aldrinum 5 til 11 ára. Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar, sagði það í höndum sóttvarnayfirvalda að ákveða hvort og þá hvenær bólusetning fyrir þennan aldurshóp hefjist hér á landi.

Búist er við því að sending af bóluefninu Comirnaty berist til landsins í lok desember. Þórólfur segir þó ekki útilokað að bólusetning þessa aldurshóps hefjist fyrr. 

„Ef við ætlum að byrja þetta í desember þá þurfum við að gefa fullorðins skammtinn en bara minna magn í einu. En þetta er ekki búið að ákveða.“

Þurfum ekki að hafa miklar áhyggjur

Spurður út í nýja afbrigðið af kórónuveirunni, B.1.1.529, sem hefur fyrst og fremst greinst í Suður-Afríku, segir sóttvarnalæknir að óþarfi sé að hafa miklar áhyggjur enn sem komið er. 

„Það er náttúrulega alltaf verið að fylgjast með nýjum afbrigðum. Það á eftir að koma í ljós hvernig það hegðar sér eða hvort það komist undan bóluefninu. Það er ekkert ljóst á þessari stundu. Meðan það er held ég að við þurfum ekkert að hafa of miklar áhyggjur af því.“

Ekki til skoðunar að herða við landamæri

Hann segir óþarfi að skoða hertari aðgerðir við landamærin, líkt og önnur lönd hafa tekið til skoðunar, enda séu aðstæður á Íslandi ekki sambærilegar.

„Það er náttúrulega bara takmörkun á beinu flugi frá þessum svæðum. Við erum ekki með neitt beint flug frá Suður-Afríku hingað til Íslands þannig að það er erfiðara hjá okkur að takmarka eitthvert aðgengi að landinu fyrir þá sem eru að koma af þessum svæðum,“ segir Þórólfur og bendir á að bæði ferðamenn og Íslendingar þurfi enn að sæta einhverjum takmörkunum við landamærin.

„Þeir sem hafa tengslanet innanlands þurfa að fara í PCR-próf. Svo þurfa aðrir að framvísa neikvæðu PCR- eða hraðprófi áður en þeir fara um borð í vél og svo erum við að fylgjast með raðgreiningu. Svo verður bara að koma í ljós hvort að við þurfum að breyta einhverju.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert