„Þú hangir í 10,5mm línu, horfir á hana og treystir“

Hilmar í tryggingu undir klettaþaki.
Hilmar í tryggingu undir klettaþaki. Ljósmynd/Rafn Emilsson

„Þetta var svolítið eins og sjóriða. Maður hefur hangið utan í veggnum í fimm daga. Ég hef aldrei upplifað að vera svona fastur í beltinu lengi. Okkur leið í alveg 2-3 daga eftir á að við værum enn fastir í beltinu.“ Svona lýsir Hilmar Ingimundarson því hvernig honum leið eftir að hafa ásamt Rafni Emilssyni klárað að klifra upp tæplega 1.000 metra háan og þverhníptan klettavegg í Yo­sem­ite-þjóðgarðinum í Kali­forn­íu. Klifrið upp tók fimm daga og í lokin voru þeir búnir með vatnsbirgðirnar og mikil uppsöfnuð þreyta eftir erfiðið.

Þegar farið er upp jafn stóra veggi og þennan þarf að huga að mörgu og ekki síst skipulagi með búnað og birgðir. Fyrir flesta væri væntanlega nægjanlegt að koma sjálfum sér upp þverhnípta veggi, hvað þá þegar um er að ræða margra daga verk. Hilmar lýsir því hins vegar að þeir hafi dregið um 80 kg poka upp á eftir sér með búnaði og birgðum, en þar af voru vatnsbirgðir um helmingur. Þá gistu þeir saman í einskonar hengirúmi sem fest er utan á klettavegginn, en Hilmar segir það vera um einn fermetra að stærð fyrir þá báða.

Rafn og Hilmar í nokkur hundruð metra hæð.
Rafn og Hilmar í nokkur hundruð metra hæð. Ljósmynd/Hilmar

Ætluðu út fyrir tveimur árum

En byrjum aðeins á byrjuninni. Hvernig kemur það til að tveir klifuráhugamenn frá Íslandi ákveða að leggja land undir fót og taka stefnuna á klifurleiðina „The Nose“ sem liggur upp klettinn El Capitain í Yosemite þjóðgarðinum, en þetta er ein þekktasta klifurleið heims. Hilmar segir að í raun hafi þetta ekki verið flókið. „Rafn spurði mig fyrir þremur árum síðan hvort ég væri maður í þetta. Ég hoppaði að sjálfsögðu á þetta með honum,“ segir hann. Bókuðu þeir fljótlega miða og ætluðu að fara út fyrir um tveimur árum. En svo kom faraldurinn. Síðan þá hafa þeir verið með hugmyndina á bak við eyrað og núna þegar aftur var orðið opið að fara ákváðu þeir að skella sér. „Þetta er eitt af stóru skemmtilegu verkefnunum,“ segir Hilmar aðspurður af hverju þessi ákveðni veggur hafi verið valinn.

Hilmar segir að eftir nokkra stund hafi hæðin hætt að …
Hilmar segir að eftir nokkra stund hafi hæðin hætt að hafa áhrif, enda skipti litlu máli hvort það sé 200m eða 500m eða 700m niður. Ljósmyndari/Hilmar

Hilmar og Rafn eru með mikla reynslu í klifurmennsku en Hilmar segir að sjálfur hafi hann byrjað í klifri fyrir um 28 árum. Í dag er hann jafnframt formaður Klifurfélags Reykjavíkur sem rekur Klifurhúsið. Rafn sé um 2-3 árum yngri og hafi stundað klifur í aðeins styttri tíma en hann, en engu að síður í meira en 25 ár. „við erum búnir að vera í alhliða fjallamennsku lengi. Fyrst í björgunarsveitum og svo víða um heim, bæði í fjallamennsku og klettaklifri,“ segir Hilmar.

Hilmar og Rafn fengu fyrirtaks útsýni yfir Yosemite þjóðgarðinn frá …
Hilmar og Rafn fengu fyrirtaks útsýni yfir Yosemite þjóðgarðinn frá veggnum. Ljósmyndari/Rafn Emilsson

Umfangsmeira og erfiðara en önnur verkefni

Hann segir klifrið í síðustu viku hafa verið töluvert umfangsmeira og erfiðara en öll önnur verkefni sem hann hafi haldið í. Þannig hafi þetta verið fimm dagar af klifri þar sem þeir gerðu ekkert annað en að setja upp tryggingar, klifra, hífa upp vistirnar, næra sig og hvílast. „Það eru alveg til erfiðari leiðir í sportklifri,“ segir Hilmar. Hins vegar sé ekki hægt að jafna því við þetta klifur. „Úthaldið og lengdin voru það erfiðasta, þetta er allt miklu stærra og meira.“

Það tekur á að klifra og fingurnir bera þess glögglega …
Það tekur á að klifra og fingurnir bera þess glögglega merki. Ljósmynd/Hilmar

Þegar kemur að fjöldægra klifri þarf að huga að svefnaðstöðu. Erfitt getur reynst að koma sér fyrir á syllum og segir Hilmar að notast sé við hengirúm sem fest séu í klettavegginn. „Það var draumur að prófa að sofa utan í veggnum í hengirúmi,“ segir hann hlægjandi. Tekur hann fram að þó þeir séu hangandi í mörg hundruð metra hæð í slíku rúmi séu þeir alltaf öruggir. „Þó maður sé sofandi á einum fermetra með öðrum manni er maður samt alltaf í línu,“ segir hann og tekur fram að ekki séu því líkur á því að velta sér út úr hengirúminu.

Klifrið er að sögn Hilmars svokallað hefðbundið klifur. Þeir setja sjálfir inn sínar eigin tryggingar í stað þess að notast við fyrirfram festar bergtryggingar. Notast þeir við „vini“ og „hnetur“ en það eru orð yfir mismunandi tegundir bergtryggingar. Um er að ræða spenniboga sem er komið fyrir inn í sprungum og í berginu sem eru svo kreistar út og haldast í sprungunum og eru trygging fyrir klifrarana. Klifurleiðir sem þessar eru mældar í spönnum, en það er lengdin á einni línu, eða um 50 metrar. Eftir hverja spönn er til viðbótar föst bergtrygging að sögn Hilmars og gerði það verkefnið þægilegra.

Svefnaðstaðan er hengirúm sem fest er í klettana.
Svefnaðstaðan er hengirúm sem fest er í klettana. Ljósmynd/Hilmar

Með 80 kg „svín“ í eftirdragi upp vegginn

Lýsir Hilmar því að ef hann klifri á undan upp spönn taki við að tryggja félagann sem komi á eftir. Svo sé byrjað að hífa upp sérútbúinn poka með öllum búnaðinum. Pokar sem þessir séu kallaðir „svínið“  en það er tekið úr ensku þar sem pokarnir bera nafnið „the pig“. Er pokinn hafður í aukalínu sem hann svo vinnur við að hífa upp með ákveðinni tækni sem létti þann kraft sem hann þurfi að nota til verksins.

Rafn og „svínið.“
Rafn og „svínið.“ Ljósmynd/Hilmar

Þeir félagar gerðu upphaflega áætlun um að klifrið myndi taka rúmlega fjóra daga. Að lokum tók klifrið fimm daga. Hilmar segir að áætlunin sé eitt það flóknasta við verkefnið, en þeir hafi meðal annars horft til þess að þeir myndu drekka 4 lítra á mann á dag. Það gerir samtals 8 lítra á dag á þá báða og 32 lítra yfir fjóra daga. Þeir ákváðu þó að taka aukabirgðir upp á einn daga, eða samtals 40 lítra af vatni. Til viðbótar við þetta eru þeir með klifurdótið, svefnpoka, dýnu, hengirúm, mat og annan búnað. Samtals segir Hilmar að þeir hafi til að byrja með verið að draga upp um 80 kg af búnaði og vistum auk þess að vera með um 20 kg samtals utan á þeim báðum. Það hafi því alveg verið nokkur áskorun að draga „svínið“ upp samhliða klifrinu.

Hér má betur sjá hversu stórt „svínið“ er.
Hér má betur sjá hversu stórt „svínið“ er. Ljósmynd/Hilmar

Tilfinningin líktist helst sjóriðu

Þegar þeir komust loks á toppinn segir Hilmar að tilfinningin hafi verið mjög skrítin. Á sama tíma og þeir hafi verið rosalega ánægðir með að klára verkefnið hafi það verið mjög sérstök tilfinning að losna við klifurbeltið. Þannig hafi þeir verið í beltinu öllum stundum, stundum hangið eða verið stígandi í því og línan stundum skorist í þá. Segist hann eiga erfitt með að lýsa tilfinningunni að fara úr beltinu, en að hún líkist helst sjóriðu og hafi varað í 2-3 daga. „Þegar maður kemur upp á topp tekur það mann tíma að venjast að vera ekki hangandi í veggnum.“ Bendir Hilmar á að margir upplifi talsverðan létti að komast úr skíðaskóm eftir langa skíðadaga. „En að fara úr beltinu, það var svakaleg frelsistilfinning.“

Við tók ganga niður klettinn, en hún tók að sögn Hilmars um átta tíma. Þar sem klifrið upp hafi tekið lengri tíma en þeir ætluðu voru vatnsbirgðir orðnar af skornum skammti síðasta daginn og hafi þeir skammtað sér vatn síðasta daginn, en þrátt fyrir það hafi þeir átt lítið vatn á leiðinni niður.

Risa tré á botni dalsins virðast pínulítil úr þessari hæð.
Risa tré á botni dalsins virðast pínulítil úr þessari hæð. Ljósmynd/Hilmar

Það breytist ekkert í 500 eða 700 metrum

Hilmar segir að þeir hafi allan tímann verið spenntir fyrir verkefninu og náð að skipta því upp í litlar einingar sem var hægt að haka við þegar kláruðust. Spurður um hvort hæðin, mörg hundruð metrar, hafi aldrei truflað, segir Hilmar að svo hafi ekki verið. Þannig hafi hann reynslu af því að vera í mikilli hæð og klifri í Ölpunum. „Þegar þú ert kominn í t.d. 200 metra hæð er alltaf hátt niður. Það breytist ekkert í 500 eða 700 metrum. Þú hangir í 10,5mm línu, horfir á hana og treystir.“

Hilmar á leið upp og línan góða.
Hilmar á leið upp og línan góða. Ljósmynd/Rafn Emilsson

Spurður um frekari áform um stóra sigra á klifursviðinu segir Hilmari að hann ætli fyrst að leyfa þessu að síast inn. „Maður er enn þreyttur,“ segir Hilmar þegar mbl.is náði tali af honum fyrr í vikunni, en þeir Rafn lentu á Íslandi á miðvikudaginn. „Auðvitað er endalaust af markmiðum og ævintýrum sem mann langar að fara í, en þetta var einn af stóru draumunum,“ segir hann. „Það sem tekur við núna er lífið, fjölskylda og vinnan,“ bætir hann við og segist ekki vita hvenær næstu ævintýri banki upp á. Hann tekur þó fram að hann sé ólíklega á leið í einhverja stóra veggi á næstunni. Frekar horfi hann til þess að fara í skemmtileg verkefni hér heima og líkir því við að færa sig úr maraþonhlaupum yfir í millivegalendahlaup.

Inn á milli er nauðsynlegt að slaka á og hvíla …
Inn á milli er nauðsynlegt að slaka á og hvíla sig og ekki síður að fara úr klifurskónum og hvíla fæturna. Ljósmynd/Hilmar
mbl.is