Stolið úr verslunum og brotist inn á heimili

Tilkynnt var um þjófnað úr verslun í Kringlunni um hálfsexleytið í gær og um hálftíma síðar barst tilkynning um þjófnað úr verslun í miðbæ Reykjavíkur, að því er kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Laust fyrir klukkan sjö í gærkvöldi var síðan tilkynnt um innbrot á heimili í hverfi 105. Sömuleiðis var tilkynnt um innbrot í fyrirtæki í hverfi 104 um hálfeittleytið í nótt.

Um hálftíuleytið í gærkvöldi var tilkynnt um þjófnað úr verslun í hverfi 220 í Hafnarfirði. Sá grunaði var handtekinn og vistaður í þágu rannsóknar málsins

Kannabisræktun stöðvuð í Hafnarfirði

Tilkynnt var um einstakling í annarlegu ástandi að áreita vegfarendur í hverfi 105 laust fyrir klukkan 20 í gærkvöldi. Hann var vistaður í fangaklefa þar til átti að renna af honum.

Kannabisræktun var stöðvuð í hverfi 220 í Hafnarfirði um áttaleytið í gærkvöldi. Sá grunaði var handtekinn á vettvangi og málið er í rannsókn.

Einnig barst lögreglunni töluvert af tilkynningum vegna samkvæmishávaða í nótt, auk þess sem þó nokkrir ökumenn voru stöðvaðir grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.

Eldur í bifreið

Óskað var eftir aðstoð lögreglu á veitingastað í Breiðholti á níunda tímanum í gærkvöldi vegna ölvaðs einstaklings sem var til vandræða.

Tilkynnt var um eld í bifreið í Mosfellsbæ á sjöunda tímanum í gærkvöldi. Starfsmenn slökkviliðsins sáu um að slökkva í bifreiðinni.

Bifreið stöðvuð laust fyrir klukkan þrjú í nótt í Mosfellsbæ. Ökumaður er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Sökum aldurs var foreldrum hans gerð grein fyrir málinu sem og barnaverndaryfirvöldum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert