„Vatnið þarf að leita eitthvert“

Í forgrunni sjást Grímsvötn og þverhníptir hamrar Grímsfjalls.
Í forgrunni sjást Grímsvötn og þverhníptir hamrar Grímsfjalls. mbl.is/RAX

Jökulhlaup er enn ekki hafið úr Grímsvötnum en allar líkur eru á að það verði bráðlega, í kjölfarið gæti síðan fylgt eldgos úr virkustu eldstöð landsins.

„Íshellan hefur lækkað um rúma 1,6 metra. Það er engin breyting á rafleiðni í Gígjukvísl en að öðru leyti er farið að hækka í ánni,“ segir Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir, náttúruvásérfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is

Hún segir að jökulhlaup hefjist ekki fyrr en skýrar breytingar sjáist. „Sem sagt að það er farið að hækka mjög í ánni og rafleiðni er farin að hækka. Þegar það er komið undan jöklinum þá segjum við að jökulhlaup sé hafið.“

Lovísa segir erfitt að segja til um hvenær hlaupið muni hefjast, en allt bendi til þess að það muni hefjast. „Íshellan er að lækka niður og vatnið þarf að leita eitthvert.“

Hún segir að Veðurstofan fylgist grannt með mælum en einnig eru reglulega farnar vettvangsferðir. „Um leið og hlaup er hafið þá förum við á staðinn. Það er fundað reglulega um stöðuna og fylgst mjög vel með öllum mælingum. Ef það eru einhverjar breytingar þá er fundað innanhúss um hana.“

mbl.is