Eftirlit bætt með Mannréttindastofnun

Mannréttindastofnun hefur víðtækara hlutverk en Mannréttindaskrifstofa.
Mannréttindastofnun hefur víðtækara hlutverk en Mannréttindaskrifstofa. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Mannréttindastofnun verður sett á fót hér á landi og sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks lögfestur, að því er fram kemur í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar.

Slík stofnun gegnir eftirlitshlutverki á sviði mannréttindamála en hún ætti meðal annars að rannsaka meint mannréttindabrot, stuðla að samstarfi við aðrar stofnanir og taka við kvörtunum á sviði mannréttindamála.

Innlend mannréttindastofnun mun hafa ríkari eftirlitsheimildir en Mannréttindaskrifstofa, sem nú er starfrækt. 

Það kennir ýmissa grasa í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Framsóknar …
Það kennir ýmissa grasa í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Vinstri grænna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stofnsetning Mannréttindastofnunar hefur reyndar legið fyrir síðan í febrúar á þessu ári en Amnesty International fagnar því að stjórnvöld setji áformin niður á blað í stjórnarsáttmálann, enda hafi samtökin kallað eftir því lengi vel. 

Amnesty fagna en vona að staðið verði við stóru orðin

Anna Lúðvíksdóttir, framkvæmdastjóri Amnesty International á Íslandi, fagnar þessum áformum, enda hafi innlend mannréttindastofnun mun rýmri heimildir til að sinna eftirliti með málaflokknum en Mannréttindaskrifstofa, sem nú er starfrækt. 

„Við fögnum þessu enda hefur Amnesty lengi barist fyrir því að komið verði á fót innlendri mannréttindastofnun. Það sem skiptir máli er að stofnunin fái raunverulegt fjármagn til að sinna þeim störfum sem stofnunin á að geta sinnt og tryggt að mannréttindi hér á landi verði þá virt,“ segir hún.

Anna Lúðvíksdóttir framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Amnesty International.
Anna Lúðvíksdóttir framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Amnesty International. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Er þetta ekki alveg tímabært?

„Það er auðvitað löngu tímabært að þessu hafi verið komið á fót. Hér hefur verið starfrækt Mannréttindaskrifstofa, sem hefur ekki umboð til að sinna samskonar eftirliti og innlend mannréttindastofnun. Hún hefur ekki fengið það fjármagn sem hún hefur þurft til. En það er auðvitað frábært að þau setji þetta í stjórnarsáttmálann og vonandi standa þau við stóru orðin.“

Þar að auki verður Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks lögfestur, að því er fram kemur í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Vinstri grænna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert