Tveir gráir hestar leiddu þau saman

Benedikt Líndal og Sigríður Ævarsdóttir.
Benedikt Líndal og Sigríður Ævarsdóttir. Ljósmynd/Ásdís Haraldsdóttir

„Ég var ekki í neinum karlahugleiðingum, en ég hef alltaf verið ofboðslega hrifin af hvítum hestum og hann var að þvælast þarna á þessum rosalega flotta hvíta hesti. Hann var að leggja snörur fyrir mig, ég áttaði mig ekkert á því, sá bara hestinn,“ segir Sigríður Ævarsdóttir um það hvernig hún og Benedikt Líndal kynntust. Þau sendu nýlega frá sér bókina Tölum um hesta, sem er óður til íslenska hestsins.

Benni. Hér á Hljómi og með hryssuna Hrund í taumi, …
Benni. Hér á Hljómi og með hryssuna Hrund í taumi, bæði þessi hross eru úr ræktun hans og Siggu.

Við höfum lengi ætlað að skrifa saman bók um hesta, en það var ekki fyrr en í covid-tíðinni sem okkur gafst loks tími til að setjast niður við þá sköpun,“ segja hjónin Benedikt Líndal og Sigríður Ævarsdóttir, eða Benni og Sigga eins og þau eru alltaf kölluð, hrossa- og geitabændur á Gufuá í Borgarfirði. Þau sendu nýlega frá sér bókina Tölum um hesta. Í bókinni deila þau reynslu sinni og lífi með hófaljónum, en slíkum skepnum hafa þau hrærst með frá því þau voru krakkar. Benni er landsfrægur tamningameistari og reiðkennari, Sigga er mikil hestakona, alþýðulistakona og hómópati. Hún sá einnig um að myndlýsa bókina með vatnslitamyndum. Í bókinni segja þau frá eftirminnilegum hestum og atvikum þeim tengdum og flétta inn í frásögnina fræðslu, sögur, ljóð og nýjar uppgötvanir.

„Okkur langar að sýna fólki hversu heillavænlegt er að leyfa tilfinningum og flæði að ráða för í vinnu með hesta,“ segir Sigga og Benni bætir við að þau líti ekki á bókina sem hefðbundna kennslubók þó þar sé vissulega fræðsla.

Sigga. Hún býður upp á geitalabb fyrir einstaklinga og hópa. …
Sigga. Hún býður upp á geitalabb fyrir einstaklinga og hópa. Geithafurinn Nóri kann að gera ýmsar kúnstir.

„Það má alltaf spyrja sig hvar og hvenær reiðkennsla byrjar og hvar hún endar. Það sem fram kemur í bókinni er fyrst og fremst viðhorf okkar og nálgun í vinnu með hesta. Við veltum líka fyrir okkur hvernig hestar eru öðruvísi en við mannfólkið og fleira í þeim dúr. Mín heilaga þrenning sem ég vinn út frá er hlustun, skilningur og samþykki. Ef hestafólk ætlar að fá þetta til að ljóma og að hestur sé sáttur, þá þarf ákveðnar forsendur. Bókin er í raun einhverskonar óður til íslenska hestsins, almennt,“ segir Benni og bætir við að þetta sé alls ekki aðeins hugsað fyrir þá sem eru að byrja í hestamennsku, heldur ekki síður fyrir þá sem eru reynslumiklir.

„Til að minna þá á hvað þetta getur allt verið skemmtilegt og gott, ef rétt er farið að. Margir hafa fengið mjög verðmæta ráðgjöf, tilsögn og annað, beint frá hestinum sjálfum, án þess að gera sér endilega grein fyrir því strax,“ segir Benni og bætir við að hann leggi mikið upp úr því að vanmeta ekki hestinn. „Ekki má heldur vanmeta knapann, allra síst börn, heldur hlusta og ekki dæma of fljótt.“

Hestar í meðferðarúrræðum

Sigga segist ung hafa fundið fyrir andlegum skyldleika við hesta og hún hefur verið að teikna hesta frá því hún var lítil stelpa.

„Ég upplifði mig stundum sem hryssu þegar ég var stelpa. Ég get ekki séð tilveruna fyrir mér án þess að vera með skepnur í kringum mig, vegna þess að þær hafa almennt mjög góð áhrif á mig, hvort sem þær eru alveg ofan í mér eða einhvers staðar í nágrenninu. Dýrin gefa frá sér orku eða hvað sem við köllum það, sem hefur mjög góð áhrif á manneskjur. Fyrir vikið er samvera með hestum notuð sem meðferðarúrræði, til dæmis fyrir fanga og aðra sem eiga erfitt og eru komnir á þann stað andlega að þeir eiga erfitt með samskipti við sjálfa sig og annað fólk. Þeir eru jafnvel hættir að tengja við eigin tilfinningar og vita ekki hvernig þeim líður, en hesturinn sýnir þeim það, því hann speglar það sem þeir ná ekki að tengja við í sjálfum sér. Þessi góðu áhrif þekkjum við Benni sjálf, í kringum hestana tónast allt niður og kerfið hjá okkur mannfólkinu róast. Þetta á við um fleiri skepnur, að vera innan um þær hefur góð áhrif á mannfólkið, enda er farið með dýr inn á stofnanir þar sem veikt fólk er,“ segir Sigga og bætir við að næmleiki hesta sé líka heillandi í vinnu með þeim.

Teymingar. Eitt af því sem tekið er fyrir í bókinni.
Teymingar. Eitt af því sem tekið er fyrir í bókinni.

„Þeir skynja vel hvernig knapanum líður og fólkinu í kringum þá, þeir finna lykt af ótta manneskju. Þeir skynja líka að þeim stendur engin ógn af börnum, ljónstyggur hestur í haga leyfir oft barni að ganga þar að sér og ná sér.“

Hross, geitur og forystufé

Þegar þau eru spurð að því hvort þau hafi lært hvort af öðru í nálgun sinni í hestamennsku, er Benni fljótur til svars: „Sigga hefur alveg tvímælalaust lært mikið af mér,“ segir hann og hlær en Sigga bætir við að þó hann hafi vissulega kennt henni margt, þá fari hann fínt í það. „Því ég kæri mig ekkert um að hann segi mér mikið til,“ segir Sigga, sem upplýsir í nýju bókinni að við þeirra fyrstu kynni hafi hún fallið fyrir hestinum sem Benni sat, en ekki tekið eftir knapanum. „Ég held að það sé misskilningur,“ segir Benni og hlær en Sigga þvertekur fyrir það.

„Ég var ekki í neinum karlahugleiðingum, en ég hef alltaf verið ofboðslega hrifin af hvítum hestum og hann var að þvælast þarna á þessum rosalega flotta hvíta hesti.“

Benni segist á þessum tíma hafa unnið við tamningar á bæ norður í Skagafirði og Sigga hafi verið á þarnæsta bæ að vinna.

Ófeigur. Saga af honum er í bókinni góðu.
Ófeigur. Saga af honum er í bókinni góðu.

„Ég reið mikið fram og til baka fyrir ofan bæinn á þessum æðislega hesti,“ segir Benni og Sigga bætir við: „Hann var að leggja snörur fyrir mig, ég áttaði mig ekkert á því, sá bara hestinn.“ Hesturinn var því örlagavaldur í lífi þeira.

„Ég hefði samt örugglega fundið aðra leið til að ná í hana, ef hún hefði ekki fallið fyrir þessum hvíta glæsihesti,“ segir Benni keikur. Sigga segist á þessum tíma líka hafa átt hvítan hest sem átti að verða eins flottur og sá sem Benni sat, en varð ekki.

„Hann var erfiður í járningu og Benni járnaði hann fyrir mig, þá fékk hann annað prik hjá mér. Okkar samdráttur gerðist því allur í gegnum þessa tvo gráu hesta.“

Sigga upplifði sig stundum sem hryssu þegar hún var stelpa.
Sigga upplifði sig stundum sem hryssu þegar hún var stelpa.

Þau Benni og Sigga una hag sínum vel í Borgarfirðinum með hrossin sín, geitur og forystufé og reka þar, auk hrossatamninga og þjálfunar, starfsemi tengda skemmtilegum upplifunum. Sigga býður t.d. upp á geitalabb fyrir einstaklinga og hópa og segir geiturnar eins og litla hesta.

„Þær temjast eins og hestar og innan þeirra er virðingarstigi og táknmál eins og hjá hestum. Við erum ekki með mikla hrossarækt og erum heldur að fækka hrossunum.“

Nánar hér.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »