Við eigum aðeins eitt stutt líf

Ingibjörg Rósa og hundur hennar Dylan Moran, sem hún nefndi …
Ingibjörg Rósa og hundur hennar Dylan Moran, sem hún nefndi eftir írskum uppistandara, en sá datt á hjóli rétt fyrir framan hana á þeim degi sem hún fékk hundinn. Dylan Moran hefur komið til Íslands með uppistand. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég kom heim til Íslands í tvo mánuði í sumar og sá hver staðan var með mömmu, en hún er með alzheimer og býr enn heima og þarf mikla aðstoð. Við Dylan hundurinn minn ákváðum því að flytja heim til hennar í haust, í það minnsta í eitt ár,“ segir Ingibjörg Rósa Björnsdóttir, en hún hefur búið í Skotlandi og Englandi undanfarin níu ár, þar sem hún starfar sem blaðamaður og einnig sem uppistandari í hjáverkum.

Engar tölur eða hnappagöt eru á flíkunum frá The Able …
Engar tölur eða hnappagöt eru á flíkunum frá The Able Label.

„Við systkinin erum þakklát fyrir að þó mamma sé með heilabilun þá er hún alltaf glöð, henni líður vel og hún er mjög meðfærileg. Hún er á biðlista að komast á stofnun en við hugsum um hana heima fram að því. Hún fer á hverjum degi í dagþjálfun hjá Maríuhúsi, og ég vann þar í sumarafleysingum í sumar, til að vera meira með henni. Eftir að ég flutti heim núna í haust þá vinn ég þar þrjá daga vikunnar. Mér finnst mjög skemmtilegt og gefandi að vinna með þeim heilabiluðu einstaklingum sem koma í dagþjálfun til okkar. Mér finnst áhugavert að sjá hvað það eru margar tegundir af heilabilun og hvernig þetta birtist með ólíkum hætti hjá hverjum og einum. Ég tek Dylan með mér í vinnuna og skjólstæðingar mínir kunna vel að meta það að fá að klappa honum og spjalla við hann. Dylan bjargaði mér alveg þegar ég var innilokuð í Edinborg í útgöngubanni í covid. Ég mátti ekki heimsækja neinn og enginn mátti koma til mín. Fyrir vikið snerti mig ekki önnur manneskja í fjóra mánuði, því ég bjó ein, og þá var sannarlega yndislegt að eiga hund eins og Dylan, til að knúsa og klappa.“

Halda virðingu í klæðnaði

Ingibjörg Rósa gerði sér lítið fyrir og opnaði nýlega vefverslunina svigrúm.is, þar sem hún býður upp á fatnað sem veitir fólki svigrúm til að halda sjálfstæði og sjálfsvirðingu þrátt fyrir ýmsar hindranir í daglegu lífi.

Föt fyrir aldraða eða aðra hreyfihamlaða þurfa ekki að vera …
Föt fyrir aldraða eða aðra hreyfihamlaða þurfa ekki að vera eins og náttföt, heldur eiga að vera falleg.

„Við það að hjálpa mömmu að klæða sig, þá fann ég sannarlega fyrir þörf á svona fötum. Fólk vill ekki aðeins þægileg föt sem auðvelt er að klæða sig í eða láta aðra hjálpa sér í, heldur þurfa þau líka að vera falleg, ekki eins og náttföt. Það skiptir marga máli að halda virðingu sinni í tengslum við klæðnað. Það er mikilvægt að fá að vera skvísa þó aldur færist yfir, fyrir þær konur sem vilja það og eru vanar því. Sama er að segja um herramennina. Einnig verður það að klæða sig orkufrek aðgerð og kvíðvænleg þegar fólk ræður illa við það. Mamma var farin að vakna á nóttunni, hún kveið svo fyrir að klæða sig á morgnana þegar hún var ein, hún óttaðist að vera ekki tilbúin þegar hún yrði sótt í dagþjálfunina. Ermaop þurfa að vera víð, flíkur opnar að framan með földum frönskum rennilás, engar tölur eða hnappar, ekki stöm efni, og fleira í þeim dúr fyrir fólk sem á erfitt með að klæða sig,“ segir Ingibjörg Rósa og bætir við að fatamerkið heiti The Able Label, og sé lítið breskt fatamerki sem Katie nokkur Ellis stofnaði.

„Hún fór upphaflega að hanna fötin til að hjálpa ömmu sinni sem var með parkinsonssjúkdóminn. Þetta eru föt fyrir fólk sem glímir daglega við ýmsar áskoranir, handskjálfta, kreppta fingur eða útlimavöntun, sem og hreyfiskerðingu og verkstol vegna heilabilunar, taugahrörnunarsjúkdóma, gigtar eða annars. Fötin koma sér líka vel fyrir fólk eftir skurðaðgerðir og tímabundin veikindi og fólk með óþolinmóða þvagblöðru.“

Ingibjörg býður líka upp á einfaldar sjónvarpsfjarstýringar með stórum, fáum litsterkum tökkum, sem henta vel þeim sem illa ráða við slík tól með mörgum samlitum litlum tökkum.

Að hjálpa gefur mér mikið

Ýmislegt hefur gengið á hjá Ingibjörgu Rósu undanfarin misseri, hún greindist með brjóstakrabbamein fyrir þremur árum og kláraði aðalmeðferðina um mitt ár 2019.

„Ég fór í mína krabbameinsmeðferð úti í Edinborg, því þar var mitt heimili og ég var inni í sjúkrakerfinu. Ég fékk mína meðferð án þess að þurfa að borga krónu. Í Edinborg er einn fremsti spítali krabbameinsrannsókna í Evrópu, svo það kom ekkert annað til greina fyrir mig. Vissulega hefði verið einfaldara að koma hingað heim í meðferð, þar sem fólkið mitt býr, en mér fannst gott að fara í gegnum þetta ein og ég vildi vera með smá fjarlægð. Ég vildi ekkert endilega að fólkið mitt þyrfti að horfa upp á mig í þessu ástandi,“ segir Ingibjörg Rósa og játar því að vissulega hafi þessi lífsreynsla breytt henni.


„Það er sannarlega klisja og væmið að segja það, en mér finnst ég vera orðin betri manneskja. Ég á auðveldara með að láta mér þykja vænt um fólk og ég reyni að láta kærleikann ráða för í öllu sem ég geri. Ég hef farið út í að aðstoða fólk, aðallega konur, við að komast yfir allskonar áföll, og það gefur mér mjög mikið. Þegar ég hafði lokið minni krabbameinsmeðferð þá var mér efst í huga að gefa af mér og hjálpa fólki, elska fólk. Ég veit vel að ég get ekki bjargað heiminum, en hver og ein manneskja sem ég aðstoða og leiðbeini skiptir máli. Við eigum bara eitt stutt líf, og vitum ekkert hversu mikill tími okkur er gefinn, þess vegna skiptir máli að gera það besta úr lífinu,“ segir Ingibjörg Rósa sem ætlar að halda kynningarkvöld á fatnaðinum frá The Able Label, um leið og covid leyfir.

„Ég sendi hvert á land sem er, og ef fólk vill máta eða skoða áður en það kaupir flíkur, þá getur það haft samband við mig í síma 8680313 eða sent tölvupóst á info@svigrum.com.

Nánar hér eða á Facebook-síðunni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »