Ætlar að bæta kjör og stöðu aldraðra og öryrkja

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, nýr félags- og vinnumálaráðherra, og Ásmundur Einar …
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, nýr félags- og vinnumálaráðherra, og Ásmundur Einar Daðason fráfarandi skóla- og barnamálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðmundur Ingi Guðbrandsson er nýr félags- og vinnumálaráðherra. Hann tók við embætti sínu í dag þegar hann tók formlega við lyklum að ráðuneytinu úr höndum Ásmundar Einars Daðasonar, sem var félags- og barnamálaráðherra á liðnu kjörtímabili. 

Við tilefnið ræddi mbl.is við Guðmund Inga, sem vill setja málefni öryrkja og aldraðra á oddinn, en Ásmundur Einar vildi ekki veita blaðamanni viðtal. 

Guðmundur Ingi segist vilja nýta krafta öryrkja og aldraðra úti í atvinnulífinu, í stað þess að aðgengi þeirra sé skert. 

Vill taka á fátækt

Raunar segir Guðmundur að hann vilji setja kjör öryrkja á oddinn og segir að mikið verk sé óunnið. Hann segir að vinna hafi hafist á síðasta kjörtímabili við að einfalda kerfið og segist Guðmundur vilja halda þeirri vinnu áfram. Kerfið sé of flókið og í stað þess þarf að koma kerfi sem grípur einstaklinga sem ekki geta séð sér farborða með atvinnuþátttöku. 

Auk þessa vill Guðmundur Ingi setja kjaramál og málefni kjaradeilna á oddinn. Hann segir að kjaradeilur dragist oft alltof mikið á langinn og vísar til stjórnarsáttmálans þegar hann segir að svokallaður standandi gerðardómur eigi að taka á því.

Hvergi í nýjum stjórnarsáttmála er minnst á orðið fátækt og sýnist sitt hverjum um það þegar í ríkisstjórn situr vinstriflokkur sem ætlar sér örmum að vefja um þá sem minnst mega sín. 

Hvað viltu segja við þá sem eru fátækir á Íslandi?

„Ég vil segja að við erum ríkisstjórn sem vill takast á við fátækt, að sjálfsögðu. Við erum sömu flokkar og stóðum að síðustu ríkisstjórn, sem meðal annars kom á þriggja þrepa skattkerfi sem gagnast mest þeim sem minnst hafa á milli handanna. Við erum sú ríkisstjórn sem breytti barnabótum með þeim hætti að þær gagnast best þeim sem minnst mega sín. Við erum sú ríkisstjórn sem kom á fót nýrri löggjöf sem tók á sárustu fátæktinni hjá eldri borgurum. Þannig ég held að við höfum nú þegar sýnt í hvaða átt við viljum stefna og þetta er akkúrat sú átt sem ég vil fara í, að takast á við fátækt og lífskjör þess hluta Íslendinga sem minnst hafa á milli handanna, til þess að gera líf þeirra betra og til þess að þau geti orðið meiri þátttakendur í samfélaginu,“ segir Guðmundur Ingi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert