Áform um þingnefndir upplýst fyrir slysni

Bjarkey og Bjarni verða formenn nefnda, gangi áformin eftir.
Bjarkey og Bjarni verða formenn nefnda, gangi áformin eftir.

Ríkisstjórnin leggur upp með að Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, verði formaður fjárlaganefndar.

Þetta má ráða af texta sem fyrir slysni fylgdi með tilkynningu frá þingflokki Vinstri grænna síðdegis í dag, en af þeim sökum má í henni sjá áform flokksins um tilnefningu þingmanna sinna til formennsku í nefndum.

Reiknað er með að Alþingi kjósi þingmenn til nefndarsetu á miðvikudag.

Bjarkey hefur setið á Alþingi frá 2013 og mun samkvæmt þessu taka við formennskunni af Willum Þór Þórssyni, sem hefur tekið við embætti heilbrigðisráðherra.

Bjarni fari fyrir utanríkismálanefnd

Einnig má ráða af tilkynningunni að Bjarni Jónsson verði formaður utanríkismálanefndar þingsins. Hann hefur verið varaþingmaður fyrir Vinstri græn frá árinu 2017 en tók sæti á þingi í síðustu viku.

Sigríður Á. Andersen, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokks, var formaður nefndarinnar á síðasta kjörtímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert