Beindi skammbyssu að sambýliskonu sinni

Frá vettvangi skotmálsins í Dalseli á Egilsstöðum.
Frá vettvangi skotmálsins í Dalseli á Egilsstöðum. Ljósmynd/Gunnar Gunnarsson

Maðurinn sem skotinn var af lögreglu á Egilsstöðum í ágúst, eftir að hafa skotið af byssu sinni nokkrum sinnum, bæði inni í húsi fyrrverandi manns sambýliskonu sinnar og víðar, hefur verið ákærður í fimm liðum. 

Ein skammbyssa og ein haglabyssa

Í ákærunni, sem mbl.is hefur undir höndum, er meðal annars ákært fyrir brot í nánu sambandi og kemur fram að maðurinn hafi, undir áhrifum áfengis, hótað sambýliskonu með því að beina að henni 22 kalíbera skammbyssu af tegundinni Beretta A87 Target þar sem hún stóð í gætt baðherbergis. 

Hótunin hafi verið til þess fallin að verkja hjá konunni ótta um líf sitt og heilbrigði. 

Einnig er ákært fyrir tilraun til manndráps, húsbrot, eignarspjöll og vopnalagabrot, hótun, brot gegn barnaverndarlögum, brot gegn valdstjórn og hættubrot.

Að kvöldi 26. ágúst ruddist maðurinn heimildarlaust inn í íbúðarhúsið á Dalseli, undir áhrifum áfengis og vopnaður hlaðinni haglabyssu af tegundinni Beretta A400Lite og hlaðinni 22 kalíbera skammbyssu, með þeim ásetningi að bana húsráðanda. 

Hann var ekki heima þegar manninn bar að garði. Skaut hann þremur skotum úr haglabyssunni innandyra og olli þannig spjöllum á heimilinu og tveimur úr skammbyssunni meðal annars í rúðu og baðherbergishurð. 

Hótaði börnunum

Fór maðurinn þá út á bílaplan og skaut tveimur skotum úr haglabyssunni í hlið einnar bifreiðar í innkeyrslunni og einu framan á annan bíl , skaut síðan sex skotum úr skammbyssunni í síðari bílinn. 

Fram kemur í ákærunni að maðurinn hótaði tveimur drengjum sem voru í húsinu sem hann réðst inn í, fjórtán og tólf ára, með hlaðinni haglabyssu þar sem þeir sátu í sófa. Drengjunum tókst að flýja út um dyr sem lágu út í garð og inn í nærliggjandi skóg. 

Beindi byssu að lögreglumanni 

Þegar lögreglu bar að hleypti maðurinn af þremur skotum út um dyragætt hússins að lögreglu með haglabyssunni. Gekk hann síðan út úr húsinu, að lögreglubifreið og ógnaði lögreglumanni með haglabyssunni. 

Í ákæru er þess krafist að maðurinn verði dæmdur til refsingar, til þess að greiða allan sakarkostnað og að byssur hans og skotfæri verði gerðar upptæk. 

Húsráðandi í Dalseli gerir kröfu á hendur manninum um skaða- og miskabætur. Fyrir hönd drengjanna og sambýliskonunnar er gerðar miskabótakröfur. 

mbl.is