Endurnýjar skipstjórnarskírteinið

Svandís Svavarsdóttir tekur við lyklum að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu frá …
Svandís Svavarsdóttir tekur við lyklum að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu frá Kristjáni Þór Júlíussyni í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kristján Þór Júlíusson, fráfarandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, er að vinna í að endurnýja skipstjórnarskírteinið sitt og var nýkominn úr prófi þegar hann mætti á Bessastaði í gær þar sem síðasti ríkisstjórnarfundur fráfarandi ríkisstjórnar var haldinn.

Kristján Þór sagði við blaðamann er hann hafði afhent Svandísi Svavarsdóttur lyklana að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í morgun, að til þess að geta endurnýjað skipstjórnarskírteinið þurfi hann að taka alþjóðleg réttindi sem fjarskiptamaður.

Um er að ræða tvö námskeið og fór hann í verklegt og munnlegt próf í Tækniskólanum áður en förinni var heitið á Bessastaði.

Var síðast á sjó fyrir 36 árum

Spurður hvort hann ætlar sér á sjóinn fljótlega segir hann það óvíst. Fyrst þurfi hann að senda inn gögn til Samgöngustofu og athuga með réttindi sín.

„Maður hélt þessu ekki við á meðan maður var í pólitíkinni. Ég var síðast á sjó 1985 sem stýrimaður og skipstjóri. Ég var búinn að ráða mig sem skipstjóri 1986 en þá var ég ráðinn bæjarstjóri [Dalvíkur],“ segir Kristján Þór, sem lýsti því yfir í vor að hann ætlaði að hætta í stjórnmálum að loknum kosningunum. 

mbl.is