„Er kannski bara ekkert plan?“

Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingar.
Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jóhann Páll Jóhannsson, nýkjörinn þingmaður Samfylkingarinnar, segir nýja ríkisstjórn hafa kynnt andlausan stjórnarsáttmála í gær, þar sem fallegum orðum er raðað saman í stað þess að kynna beinharðar áætlanir um aðgerðir.

Hann bendir á að hvergi er í nýjum stjórnarsáttmála kveðið á um fátækt, félagslegt réttlæti og engar skýrar áætlanir til að draga úr ójöfnuði. Það finnst honum miður.

„Þetta er ríkisstjórn sem er mynduð um kyrrstöðu og ráðherrastóla, frekar en einhverja spennandi sýn um hvert samfélagið eigi að stefna.

Segir stefnu í heilbrigðismálum óskýra þrátt fyrir neyðarkall úr kerfinu

„Það er mikið talað um að ríkisstjórnin leggi áherslu á heilbrigðismál og loftslagsmál en svo er öll umfjöllun um þessa málaflokka í stjórnarsáttmálanum mjög rýr og óljós og opin til túlkunar,“ segir Jóhann við mbl.is og bætir við að svör vanti um hvernig vandamál verða leyst í heilbrigðiskerfinu. 

„Starfsfólk þar er undir ómanneskjulegu álagi og við heyrum neyðarhróp innan úr kerfinu og sérstaklega frá bráðamóttökunni nánast vikulega. Það hefur þurft að fresta aðgerðum trekk í trekk vegna plássleysis og manneklu.

Þannig þetta eru gríðarstór verkefni sem ríkisstjórnin stendur frammi fyrir en samt birtist engin sannfærandi aðgerðaráætlun í stjórnarsáttmálanum um hvernig eigi að gera þetta, hvernig verði unnið verður gegn mönnunarvanda, atgervisflótta, útskriftarvanda, hvernig opinbera kerfið verður stutt og hvernig komið verður skipulagi á einkaframtakið innan geirans,“ segir Jóhann og spyr:

„Það kemur ekkert fram um hvert planið er. Er kannski bara ekkert plan?“ 

Starfshópar ráðherra verði ekki í askana látnir

Jóhann segir að ýmislegt í ráðherravalinu hafi komið sér á óvart, t.d. að Guðmundur Ingi Guðbrandsson sem áður var umhverfisráðherra taki við félagsmálunum.

Guðmundur Ingi sagði við mbl.is í morgun þegar hann tók við lyklavöldum í nýju ráðuneyti að hann vildi berjast fyrir öldruðum og öryrkjum og þá sem stæðu höllum fæti í samfélaginu. 

Jóhann Páll segir að fátækasta fólkið á Íslandi þurfi ekki á starfshópum og úttektum að halda heldur raunverulegum kjarabótum.

Nýi félagsmálaráðherrann er stjórnmálamaður sem ég man ekki til þess að hafi nokkurn tímann tjáð sig um málefni öryrkja, almannatryggingar eða vinnumarkaðsmál, að minnsta kosti ekki svo tekið væri eftir. Ef Vinstri græn ætlar að fara með félagsmálin eins og þau fóru með loftslagsmálin á síðasta kjörtímabili, þar sem við sáum skýrslur, áætlanir og glærusýningar en frekar máttlausar aðgerðir til að draga úr losun, þá eru það ekki góðar fréttir fyrir öryrkja og fólk sem reiðir sig á lífeyri,“ segir Jóhann og bætir við:

Fátækustu hóparnir á Íslandi þurfa ekki fleiri úttektir og starfshópa, fólkið þarf fyrst og fremst raunverulegar kjarabætur eins og hækkun lífeyris og frítekjumarks - og þetta má fjármagna með réttlátara skattkerfi og sanngjörnum auðlindagjöldum.

Kafli um loftslagsmál nái stutt

Jóhann Páll fagnar því að ríkisstjórnin virðist ætla sér að setja loftslagsmál á oddinn og telur jákvætt að ríkisstjórnin hafi sett markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. 

Hann segir þó að loforðin nái ekki mikið lengur en það.

„Það er fagnaðarefni að við séum komin þarna með sjálfstætt landsmarkmið um 55% samdrátt í losun fyrir árið 2030. Í þessum stjórnarsáttmála eru þó aðallega áform um að gera áætlanir og einhver markmið um að markmið verði sett í hinum og þessum málaflokknum. En áform um hvernig eigi að ná þessum markmiðum eru hvergi sjáanleg.“

Hann spyr meðal annars hvert hlutverk ríkisins í orkuskiptum verður, hvaða lögum og reglum verður breytt, hvort kolefnisgjöld verði hækkuð, hvenær nýskráningu bensín- og díselbíla verður hætt, hvað verði gert til að efla almenningssamgöngur og hvetja til vistvænni ferðamáta, hvernig bílum verði fækkað, hvert umfang kolefnisbindingaverkefna verður, hversu mikið votlendi eigi að endurheimta, hvað eigi að gera til þess að styðja við kolefnisförgunartækni og uppskölun slíkrar tækni og hvernig stjórnvöld ætla að styðja við þróun framleiðslu á vistvænu eldsneyti.

„Það eru engin skýr svör við neinum af þessum spurningum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert