Hlaupórói mælist á skjálftamælum

Horft yfir Grímsvötn. Mynd úr safni.
Horft yfir Grímsvötn. Mynd úr safni. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Íshellan yfir Grímsvötnum hefur nú sigið um tæpa fimm metra. Hlaupórói mælist á skjálftamælum, sem gefur til kynna að vatn sé farið að streyma undir jöklinum.

Rafleiðni hefur hinsvegar vaxið mjög hægt í Gígjukvísl og ekkert gas mælist.

Vatnamælingamenn frá Veðurstofunni voru að störfum á bökkum árinnar í dag til að huga að mælitækjum. Rétt fyrir hádegi mældist rennsli árinnar um 240 rúmmetrar á sekúndu og hafði haldist óbreytt þegar Veðurstofan sendi frá sér tilkynningu síðdegis í dag.

Ekki sjálfgefið að vötnin tæmist

Miðað við mælingar á vatnsstöðunni í Grímsvötnum gæti hámarksrennsli hlaupsins orðið um 5.000 rúmmetrar þó ekkert sé hægt að fullyrða á þessu stigi að það verði raunin. 

Mælingar á vegum Jarðvísindastofnunar Háskólans benda til þess að um 0,1 rúmkílómetri vatns hafi þegar farið úr vötnunum, sem er um 10% af því vatni sem var í Grímsvötnum áður en íshellan tók að síga. Ekki er þó sjálfgefið að vötnin tæmist.

Líkur hafa verið taldar á gosi úr eldstöðinni í kjölfar hlaups. Enn hafa engin merki sést um slíkt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert