Þarf breiða sátt um sjávarútvegsmálin

Svandís Svavarsdóttir tekur við lyklum að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu frá …
Svandís Svavarsdóttir tekur við lyklum að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu frá Kristjáni Þór Júlíussyni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þegar Svandís Svavarsdóttir tók við lyklunum að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu sem nýr sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra  spurði hún Kristján Þór Júlíusson fráfarandi ráðherra hvort hún geti treyst því að hún megi hringja í vin. „Ég er vanur því að hringja í vin,“ sagði Kristján þá og uppskar hlátrasköll.

Hópur settur saman til að stilla strengina

Svandís kveðst vera spennt að hitta fólkið í ráðuneytinu og koma sér í gírinn. Mikil leiðsögn sé í stjórnarsáttmálanum varðandi hennar málaflokka og gaman verði að takast á við komandi verkefni.

Hún nefnir að í hennar málaflokki séu atvinnugreinar sem eigi sér djúpar rætur í samfélaginu en einnig atvinnugreinar með miklum tækifærum bæði til nýsköpunar og þróunar. „Þar eru fjölmargir sprotar sem þegar hafa látið á sér kræla og hafa fengið að blómstra. Svo eru tækifæri líka í loftslagsmálum og í því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda sem er kannski stærsta verkefni samtímans,“ segir Svandís, sem er fráfarandi heilbrigðisráðherra.

Spurð hvort hún sjái fram á breytingar hvað varðar sjávarútvegsmálin segist hún taka við leiðsögninni úr stjórnarsáttmálanum um að setja niður hóp til að stilla saman strengi í þeim mikilvæga málaflokki. „Það hefur verið og er mjög mikilvægt að það sé sem breiðust sátt í samfélaginu um þau mál, bæði að því er varðar fyrirkomulag, skipulag og með hvaða hætti greinin tekur þátt í því að byggja upp samfélagið. Ég mun fara í það á næstu dögum  að finna út úr því hvernig sá hópur verður settur saman en núna var ég bara að taka við lyklinum þannig að ég ætla að byrja á því að lesa,“ greinir Svandís frá.

Gengur út í „lífið og frelsið“

Kristján Þór kveðst skilja við ráðuneytið sáttur við sitt. „Ég skil mjög sáttur við þetta starf og þessa gömlu tilveru mína. Það er ánægjulegt að geta gengið héðan út í lífið og frelsið,“ segir Kristján, sem sagðist í vor ætla að hætta í stjórnmálum eftir kosningarnar.

Inntur eftir því hvað hann sé ánægðastur með í sínum störfum segist hann vera stoltastur af því að hafa fengið að gegna ábyrgðarstörfum. „Ég hef notið mjög góðs stuðnings míns fólks í kjördæminu mínu og inni í þingflokknum mínum hefur mér verið trúað og treyst til vandasamra verka þannig að ég er afskaplega ánægður og stoltur af því að hafa fengið tækifæri til að gegna hvoru tveggja starfi alþingismanns og svo ráðherra,“ segir hann.

Spurður hvort næsta skref sé að fara á skíði segist hann búast fastlega við því en einnig að veiða silung fyrir norðan „og skreppa kannski á sjó eða ganga á fjöll,“ segir hann. „Það er ýmislegt sem ég hef úr að velja og það er ánægjulegt að geta átt tíma til þess að hafa slíkt val.“

Ertu hættur í stjórnmálum?

„Ég lofa aldrei. Ég hef mínar pólitísku skoðanir og svo fremri sem ég vil nota atkvæðisrétt minn mun ég hafa skoðanir á hlutum og þá hættir maður aldrei í pólitík.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert