„Þessi maður á að vera heima hjá sér“

Móðir Begga lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja árið 2019 eftir ellefu …
Móðir Begga lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja árið 2019 eftir ellefu vikna lífslokameðferð. mbl.is/Helgi Bjarnason

Beggi Dan, sonur konu sem lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja árið 2019 eftir ellefu vikna óþarfa lífslokameðferð fyrirskipaða af Skúla Gunnlaugssyni lækni, segir ákvörðun Landspítalans um að Skúli skuli enn vera við störf á spítalanum, „eins og að fá kjaftshögg“.

Beggi skrifaði opið bréf til stjórnenda Landspítalans sem birt var á Vísi og tekur skýrt fram að móðir hans hafi ekki verið haldin neinum sjúkdómum eða kvillum sem ógnuðu lífi hennar.

Niðurstöður rannsóknar landlæknis

Segir hann sig knúinn til að skrifa bréfið því hann vilji að stjórnendur Landspítalans séu meðvitaðir um þá meðhöndlun sem Skúli veitti móður hans. Bendir hann sérstaklega á að ekki sé einungis um skoðun hans á störfum Skúla að ræða heldur séu upplýsingarnar byggðar á niðurstöðum rannsóknar landlæknis.

„Hún var einkennileg tilfinningin sem greip mig þegar ég uppgötvaði að þið hefðuð ráðið Skúla, lækni sem grunaður er um alvarlega og refsiverða háttsemi gagnvart sjúklingum, í vinnu á sjúkrahúsinu ykkar. Þetta gerðuð þið þrátt fyrir rannsókn landlæknis og þá staðreynd að hann er með stöðu sakbornings í sakamálarannsókn þar sem meint fórnarlömb eru ellefu talsins, af þeim létu sex lífið,“ skrifar Beggi.

Beggi Dan.
Beggi Dan. Ljósmynd/Aðsend

„Síðustu vikurnar í lífi móður minnar voru henni hreinasta kvalræði. Sýkingar voru ekki meðhöndlaðar, ekki var haldið að henni vökva, alvarlegur bætiefnaskortur var virtur að vettugi auk þess sem risastór legusár sem gengu inn að beini fengu að grassera. Hún fékk drep í annað eyrað, hluti af því datt af.

Í þau skipti sem hlúa átti að legusárunum þá fékk hún ekki deyfingu því Skúli hefur talið það óþarft að lina kvalir hennar, í það minnsta samþykkti hann ekki notkun deyfilyfja þegar kom að því að hreinsa sárin sem kvöldu hana svo sárt,“ skrifar Beggi.

Hefur áhyggjur af sjúklingunum

Í samtali við mbl.is segist Beggi ekki hafa síst af áhyggjur af sjúklingum Skúla þrátt fyrir að hann eigi að vera undir eftirliti. „Þessi maður á að vera heima hjá sér þangað til það er komin niðurstaða í rannsókn lögreglu. Það tel ég augljóst,“ segir Beggi.

„Mér finnst ótrúlega óábyrgt af spítalanum að hafa manninn þarna á vappi um gangana á meðan að mál hans er í rannsókn,“ segir Beggi og bendir á landlæknir sé búin að skoða málið og hafi skilað sláandi áliti. Það sé því eins og stjórnendur Landspítalans hunsi það.

„Það er álit landlæknis að STG yfirlæknir hafi ekki staðið við sína ábyrgð og skyldur við meðferð DJ og í staðinn leitast við að varpa ábyrgð sinni á sjúklinginn,“ segir meðal annars í áliti Landlæknis.

Skúli hafi fengið sérmeðferð

Beggi segir ákvörðunina bæði ótrúlega og óskiljanlega og þá sérstaklega í ljósi þess að upp hafi komið önnur minna alvarlega mál á Landspítalanum þar sem starfsfólk hefur verið látið fara. „Í málum sem eru á vissan hátt ekki jafn alvarleg en mjög alvarleg engu að síður þá er fólk látið fara. Þannig mér finnst þetta ótrúlega óábyrgt af spítalanum og ég held það hljóti að vera að þarna séu einhver tengsl,“ segir Beggi.

„En í tilfelli Skúla sem er grunaður um refsiverða háttsemi gagnvart ellefu manneskjum, sjúklingum, og þar af dóu sex. Hann fær að vera áfram, þetta er bara eitthvað sem ég skil ekki,“ segir Beggi og bætir við að það sé augljóst mál að Skúli hafi fengið sérmeðferð.

mbl.is