500 milljónir í viðbyggingu við Stjórnarráðshúsið

Hálfur milljarður fer í viðbyggingu við Stjórnarráðshúsið á næsta ári.
Hálfur milljarður fer í viðbyggingu við Stjórnarráðshúsið á næsta ári. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Framlög til Alþingis aukast um rúmlega 300 milljónir milli ára í nýju fjárlagafrumvarpi sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnti í dag. Nemur það um 5,4% hækkun, en áætlað er að útgjöldin verði 6.080 milljónir á komandi ári. Nemur hækkunin 5,4%, en miðað við áætlaða verðlagsbreytingu nemur hækkunin 0,2%.

Þá er gert ráð fyrir að framlög til forsætisráðuneytisins aukist um 42% og fari úr 1.690 milljónum í 2.415 milljónir. Í fjárlagafrumvarpinu kemur fram að þar af séu áætlaðar verðlagsbreytingar um 50 milljónir, en til viðbótar sé gert ráð fyrir 500 milljónum vegna viðbyggingar við Stjórnarráðshúsið. Þá fara 99 milljónir í endurbætur á innviðum Bessastaðakirkju og 45 milljónir vegna nýrra verkefna í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Framlög vegna ríkisstjórnarinnar aukast um 34 milljónir og fari úr 681 milljón í 715 milljónir. Nemur það um 5% hækkun.

Fyrir embætti forseta er gert ráð fyrir 345 milljónum á komandi ári. Er það hækkun um 19 milljónir, en ef tekið er mið af áætluðum verðlagsbreytingum er um 11 milljóna raunlækkun að ræða.

Samtals hækka framlög fyrir Alþingi og eftirlitsstofnanir Alþingis og æðstu stjórnsýslu landsins um 1,1 milljarð milli ára, eða um 11,4%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert