Fái heimild til að kaupa Hótel Sögu

Hótel Saga.
Hótel Saga. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í fjárlagafrumvarpinu er lagt til að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra verði gefin heimild vegna „mögulegra áforma um að ganga til samninga um kaup á Hótel Sögu sem gæti hentað til að koma starfsemi Menntavísindasviðs Háskóla Íslands fyrir á háskólasvæðinu,“ eins og það er orðað. Sú deild er nú staðsett í Stakkahlíð og Skipholti.

Fram kemur, að forsenda fyrir því að til álita kæmi að ganga til kaupa á Hótel Sögu sé að eignin bjóðist á hagstæðum kjörum. Áætlað heildarumfang vegna kaupa á fasteignum er um fimm milljarðar kr. og þar muni mest um kaup á Hótel Sögu nái það fram að ganga.

Í frumvarpinu, í kafla sem fjallar um heimildir fjármálaráðherra, kemur einnig fram að það sér til skoðunar að ganga til samninga um kaup á jörðinni Mið-Fossum í Borgarbyggð ásamt þeim fasteignum sem þar séu undir starfsemi Landbúnaðarháskólans en skólinn hefur leigt aðstöðu á jörðinni undanfarin ár. Þá er vísað til heimildar vegna beiðni um að ráðist verði í kaup á aukinni aðstöðu fyrir hestafræðideild Háskólans á Hólum í Hjaltadal.

Fjárlagafrumvarpið í heild.

mbl.is