Fjárlögin „boða bjartari tíma“ fyrir heimilin

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, á blaðamannafundi í morgun.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, á blaðamannafundi í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vindar eru að snúast í efnahagslífinu og bjartari horfur eru fyrir heimili og fyrirtæki í landinu. Þetta segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, í tilefni þess að hann kynnti nýtt fjárlagafrumvarp á blaðamannafundi í dag auk fjármálastefnu fyrir árin 2022-26. 

„Þetta fjárlagafrumvarp boðar bjartari tíma,“ segir Bjarni í samtali við mbl.is.

Spurður um hvaða þýðingu frumvarpið hafi fyrir heimili og fyrirtæki segir hann:

„Það er að raungerast sem við vonuðum, að bjartari sviðsmyndirnar eru að ganga eftir. Það að atvinnulífið sé að taka við sér hefur heilmikla þýðingu fyrir ríkissjóð og mun leiða til þess að skuldir ríkissjóðs verði umtalsvert lægri en við á tímabili óttuðumst. Þetta gerir okkur kleift að viðhalda öflugri opinberri þjónustu.

En það eru að snúast vindar og við sjáum það á áherslum sem peningastefnunefnd hefur haft að undanförnu og birtist okkur í vaxtahækkunum að við þurfum að leggjast á árar með Seðlabankanum til að halda aftur af hækkun verðlags og það er mikilvægt vegna þess að ella munu bæði heimili og fyrirtæki þurfa að glíma við hærri vexti. Og við vitum að heimilin eru viðkvæm fyrir vaxtahækkunum ekki síst þau sem hafa farið í óverðtryggða vexti breytilega.“

Vill minnka útgjöldin

Ráðherra segir einnig að hann vilji sporna gegn auknum útgjöldum ríkissjóðs. Áður hafði verið þörf á slíkum útgjöldum til þess að vernda íslensk heimili og fyrirtæki en nú þegar hagkerfið hefur rétt úr kútnum eftir kórónukreppuna er minni þörf á innspýtingu af hálfu ríkisins.

„Ég er kannski fyrr en ég átti von á að boða mikilvægi þess að við aukum ekki enn við ríkisútgjöldin. Síðustu misseri hef ég haft litlar áhyggjur af hallarekstri ríkissjóðs vegna þess að við höfum þurft að styðja við hagkerfið, en nú er hagkerfið búið að taka við sér að langmestu leyti og þá breytist hlutverk opinberu fjármálanna.“

Til eru fræ

Á blaðamannafundi í morgun var Bjarna tíðrætt um spá um verga landsframleiðslu í október í fyrra, þegar heimsfaraldur geisaði og bóluefnadreifing ekki hafin. Horfurnar hafa batnað allverulega síðan og hefur spáin síðan fyrir rúmu ári ekki gengið eftir. Raunar hefur verg landsframleiðsla aukist meira og hraðar en spár gerðu ráð fyrir. 

Með hliðsjón af því að spáin í október í fyrra gekk ekki eftir, hversu viss ertu að það sem þú boðar núna gangi eftir?

„Ég er bjartsýnn á framtíðina vegna þess að við höfum séð gerast í íslensku hagkerfi á undanförnum árum, að áhersla okkar á rannsóknir og nýsköpun í atvinnulífinu hefur skilað nýjum sprotum sem eru að vaxa ört. Það eru ekki bara fyrirtæki eins og Controlant og CCP, heldur eru fjöldinn allur af fyrirtækjum eins og Sidekick Health og fleiri sem eru að njóta góðs af því að það hefur safnast mikið fé inn í vísissjóði. Og við höfum verið að gera breytingar á skattkerfinu og auka við í tækniþróunarsjóði til þess að ýta á eftir þessari þróun. Svo eru stærri fyrirtæki eins og Alvotech sem eru að fjárfesta í stórum stíl. Þannig ég er mjög bjartsýnn um að við eigum enn í jörðinni fræ sem eiga eftir að spretta upp á næstu árum,“ segir Bjarni og bætir við að það kæmi honum ekki á óvart ef íslenska hagkerfið stæði styrkari fótum en hagspár næstu þriggja til fjögurra ára gerðu ráð fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert