Framlög til heilbrigðismála aukin um 16,3 milljarða

Landspítalinn við Hringbraut.
Landspítalinn við Hringbraut. mbl.is/Ómar Óskarsson

Framlög til heilbrigðismála munu aukast um 16,3 milljarða milli ára samkvæmt nýju fjárlagafrumvarpi sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnti í morgun. Er það mesta einstaka hækkun málaflokks milli ára. Benti Bjarni í kynningu sinni á að framlög í málaflokkinn hefðu aukist um 31% að raungildi frá árinu 2017.

Sett verði upp sex hágæslurými

Þá kemur fram að gert sé ráð fyrir 2,6 milljarða framlagi til að auka getu Landspítalans til að bregðast við heimsfaraldrinum og að ráðist verði í opnun sex hágæslurýma, 30 nýrra endurhæfingarrýma og komið á fót sérstakri farsóttardeild í Fossvogi.

Samkvæmt fjárlögunum er gert ráð fyrir 127,6 milljarða framlagi til sjúkrahúsþjónustu, 65 milljörðum í aðra heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa, 67 milljörðum í hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu og 31,5 milljörðum í lyf og lækningavörur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert