„Gefum okkur eitt viðbótarár“

Bjarni Benediktsson kynnti fjárlög næsta árs á fundi í morgun.
Bjarni Benediktsson kynnti fjárlög næsta árs á fundi í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ríkissjóður mun vera rekinn með halla einu ári lengur en áætlað var í fyrra samkvæmt nýrri fjármálaáætlun sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnti í morgun. Sagði hann að hins vegar liti allt út fyrir að skuldastaða ríkisins yrði betri en áður var spáð og að skuldahlutfallið yrði 38% í stað 47% í árslok 2025.

Bjarni sagði að gera mætti ráð fyrir halla bæði ríkissjóðs og sveitarfélaga á komandi árum, en að hann muni fara stiglækkandi ár frá ári. Þá væri í nýrri spá frestað um eitt ár þeim punkti þegar skuldahlutföll ríkisins hætta að versna. Þannig yrði ríkið rekið með halla eitt ár lengur en spáin í fyrra gerði ráð fyrir.„Við gefum okkur eitt viðbótarár,“ sagði Bjarni á fundinum og bætti við „Heildarskuldastaðan leyfir það alveg.“

Þrátt fyrir þetta aukaár sagði Bjarni að hlutfall skulda af vergri landsframleiðslu ætti ekki að fara yfir 40% út árið 2025 og samkvæmt spá ráðuneytisins ætti það að verða um 38% í lok árs 2025. Sagði hann að það væri gott og heilbrigt skuldahlutfall í alþjóðlegum samanburði og að lág hlutföll árin 2018 og 2019 hafi verið „kletturinn sem við stóðum á“ fyrir faraldurinn, en þá var hlutfallið um og undir 20%.

Sagði hann að forsendur fyrir því að hægt væri að koma rekstrinum í jákvætt horf værri þrenns konar. Í fyrsta lagi bættar efnahagshorfur og meiri þróttur í hagkerfinu. Annars vegar að sala Íslandsbanka yrði kláruð og í þriðja lagi að brugðist yrði við hruni tekjustofna vegna orkuskipta. Þar á hann meðal annars við skatta á eldsneyti sem að mestu detta út með orkuskiptum í samgöngum.

mbl.is