„Halda áfram að halda fátæku fólki í fátækt“

Inga segir fátækt fólk enn þurfa að bíða eftir réttlætinu.
Inga segir fátækt fólk enn þurfa að bíða eftir réttlætinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég sé bara að það á að halda áfram að halda fátæku fólki í fátækt og það á að halda áfram að skattleggja fátækt. Ég sé að það á ekki að ná í neina aukna fjármuni hvorki í sambandi við bankaskatt eða aukin veiðigjöld,“ segir Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, um fjárlagafrumvarp næsta árs.

Það sé þó jákvætt að halli ríkissjóðs vegna kórónuveirufaraldursins sé minni en búist var við.

„En hvað lýtur að þeim þjóðfélagshópi sem Flokkur fólksins var stofnaður utan um, til að hjálpa og berjast fyrir, þá sé ég að áfram, undir forystu Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, þarf fátækt fólk ennþá að bíða eftir réttlætinu, það er bara þannig,“ segir Inga í samtali við mbl.is.

Samkvæmt fjárlögunum sé það nokkuð ljóst að gera eigi miklu minna en stjórnarsáttmálinn kveður á um. „Stjórnarsáttmálinn er meira kominn í fallega jólakjólinn. Hann er opinn í báða enda og þau geta dregið hlutina fram á síðasta dag. Það kemur hvergi fram hvað á að eyða miklum fjármunum í þetta eða hitt eða hvenær á að framkvæma hlutina."

Um sé að ræða samansafn af málamiðlunum og millilendingum sem hafi verð hnoðað saman á ótrúlega löngum tíma.

Alltaf tíunda flokks þjóðfélagsþegnar

Hún segir Flokk fólksins vilja leggja aðaláherslu á fólkið. „Við segjum fólkið fyrst. Það á að setja 13 milljarða í loftslagsmál í þessum fjárlögum, sem sumum finnst ekki nógu vel í lagt. Ef það er hægt að setja 13 milljarða í loftslagsmál þá vil ég setja þrisvar sinnum meira í fólkið. Fátækt fólk er að ganga inn í jólin, það eru lengdar biðraðir hjá hjálparstofnunum. Ég hef einfaldlega skömm af því að það sé ekki reynt að gera allt til að fólkinu okkar líði vel og fái að taka þátt í samfélaginu eins og hluti af því. Það sé ekki alltaf jaðarsett, andlega niðurbrotið og börnin þeirra bæld og geta ekki tekið þátt í neinum sköpuðum hlut. Ég er bara algjörlega orðlaus. En ókei, kemur það mér á óvart? Nei, það gerir það ekki.“

Það að hækka bætur til almannatryggingaþega um eitt prósent umfram vísitöluhækkun um áramótin sé bara grín. „Kjaragliðnunin er orðin tugir prósenta og þegar laun eru að hækka um kannski sjö prósent þá er verið að hækka þau um 3,6 hjá almanntryggingunum. Það gliðnar alltaf kjarabilið og þau dragast alltaf meira og meira aftur úr. Nú er verið að spá á fimmta prósent verðbólgu og hvað verður þá um þessa hækkun um áramótin, hún er farin. Það er engin kaupmáttaraukning, þau eru alltaf skilin eftir og eru alltaf tíunda flokks þjóðfélagsþegnar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Loka