Kamilla Rún ráðin forseti sálfræðideildar HR

Kamilla Rún Jóhannsdóttir.
Kamilla Rún Jóhannsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Dr. Kamilla Rún Jóhannsdóttir hefur verið ráðin deildarforseti sálfræðideildar Háskólans í Reykjavík, að því er kemur fram í tilkynningu.

Kamilla Rún lauk doktorsnámi í sálfræði í þverfaglegum hugvísindum frá Carleton University í Kanada árið 2004 og BA prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands árið 1996. Þá hefur hún verið forstöðumaður grunnnáms í sálfræði við HR síðan 2014 og gegnt stöðu deildarforseta sálfræðideildar í afleysingum frá 1. október á þessu ári. Kamilla hefur einnig setið í siðanefnd HR frá 2011 og verið formaður námsráðs sálfræðideildar. 

Þá segir í tilkynningunni að Kamilla hafi tekið virkan þátt í stefnumótun sálfræðideildarinnar allt frá stofnun sem og uppbyggingu grunnnámsins. Hún tekur við stöðunni af dr. Bryndísi Björk Ásgeirsdóttur sem nýverið tók við stöðu sviðsforseta samfélagssviðs.

Hefur leitt stór þverfagleg rannsóknarverkefni

„Kamilla er virtur vísindamaður á sviði hugrænnar og hagnýttrar sálfræði og hefur leitt og tekið þátt í stórum þverfaglegum rannsóknarverkefnum. Meðal helstu rannsóknaverkefna má nefna rannsóknir á greiningu streitu, álags og þreytu í flugumferðastjórn í gegnum mælingar á lífeðlisfræðilegum þáttum og gervigreind og rannsóknir á hugrænni færni í tengslum við svefnraskanir,“ segir í tilkynningunni. 

Kemur einnig fram að Kamilla hafi birt fjölmargar vísindagreinar í alþjóðlegum vísindaritum, hafi mikla reynslu af kennslu á háskólastigi, sé leiðbeinandi doktorsnema í sálfræði við sálfræðideild og hafi leiðbeint fjölda meistaranema og BSc nema í rannsóknarverkefnum.

mbl.is