Nýja afbrigðið komið víðar en menn halda

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þrátt fyrir að stjórnvöld víða um heiminn hafa ákveðið að herða sóttvarnaraðgerðir á landamærum sínum vegna nýs afbrigðis kórónuveirunnar, Ómíkron, eru engar breytingar fyrirhugaðar á landamærum Íslands að svo stöddu. Þetta segir Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir, í samtali við mbl.is.

„Það gæti hinsvegar breyst í ljósi nýrra upplýsinga,“ segir hann.

Bíður eftir frekari upplýsingum

Inntur eftir því segist hann enn vera að bíða eftir frekari upplýsingum um hið nýja afbrigði og að hann láti það vera að hafa of miklar áhyggjur þar til þær liggja fyrir.

„Það er verið að safna þessum upplýsingum saman og það tekur alltaf einhverja daga. Bæði þurfum við að fá betri upplýsingar um það hversu smitandi þetta afbrigði er og hvort það sé að valda alvarlegum veikindum.“

Vísbendingar bendi þó til þess að þeir sem greinist með afbrigðið verði ekki alvarlega veikir en það hafi ekki verið staðfest, að sögn Þórólfs.

Ekkert tilfelli Ómíkrón-afbrigðisins hefur greinst á Íslandi enn sem komið er. Þórólfur hefur þó áður sagt að mjög erfitt verði að koma í veg fyr­ir að afbrigðist berist hingað til lands.

„Það eru afar fá lönd sem hafa náð að raðgreina allar veirurnar eins og við höfum gert. Þannig við getum sagt með nokkurri vissu að þetta afbrigði veirunnar hefur ekki greinst hér. Ég veit þó af nokkrum tilfellum sem greinst hafa í Skotlandi, sem hafa ekki tengsl við útlönd, sem segir okkur að þetta sé komið víðar en menn halda.“

Rúmlega 20 þúsund Íslendingar hafa verið bólusettir með bólefni Moderna.
Rúmlega 20 þúsund Íslendingar hafa verið bólusettir með bólefni Moderna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áhyggjuefni ef bóluefni veita ekki næga vernd

Forstjóri Moderna varaði við því í dag að bóluefni lyfjaframleiðandands við kórónuveirunni veiti mögulega ekki næga vörn gegn hinu nýja afbrigði. Inntur viðbragða við ummælunum segir Þórólfur þá 20 þúsund einstaklinga sem hlotið hafa bóluefni Moderna hér á landi ekki þurfa að hafa meiri áhyggjur en þeir sem hlotið hafa önnur bóluefni. 

Það sé þó áhyggjuefni ef þau bóluefni sem nú eru í notkun reynast ekki veita næga vernd gegn hinu nýja afbrigði en það eigi enn eftir að koma í ljós.

„Þetta eru spurningar sem er ekki hægt að svara alveg á þessari stundu. Við þurfum bara að sjá hvað þessar rannsóknarniðurstöður segja.“

Pönt­un af bólu­efni fyr­ir börn á aldr­in­um 5 til 11 ára gegn Covid-19 er á leiðinni til lands­ins og kem­ur vænt­an­lega til lands­ins í lok des­em­ber­mánaðar en ekki hefur ennþá verið ákveðið hvort bólusetja eigi þennan aldurshóp. Spurður segir Þórólfur erfitt að segja til um það hve góða þáttakan verður í þeim bólusetningum, verði af þeim yfir höfuð.

Vísbendingar um að faraldurinn sé á niðurleið

117 greind­ust með kór­ónu­veiruna inn­an­lands í gær, þar af voru 51 í sótt­kví við grein­ingu eða 43,5 pró­sent. Þórólfur segir yfirstandandi bylgju faraldursins hér á landi vera á niðurleið og að það sé til marks um að þær sóttvarnaraðgerðir sem nú eru í gildi séu að virka.

„Þetta er að mjakast niður. Við erum ekki að sjá neinar stórar hópsýkingar þótt það sé ennþá verið að eiga við leifarnar af hópsýkingunum sem hafa verið að koma upp hér og þar um landið. Ég vona að þessi þróun haldi áfram en það getur tekið svolítinn tíma að koma þessu niður í ásættanlega tölu.“

Frá skimun í Leifsstöð.
Frá skimun í Leifsstöð. mbl.is/Kristinn Magnússon

Willum fékk fyrsta minnisblaðið

Willum Þór Þórsson, nýr heilbrigðisráðherra, fékk sitt fyrsta minnisblað frá Þórólfi í dag, eftir rúman sólarhring í starfi, að því er RÚV greinir frá. Í minnisblaðinu segir Þórólfur að um 60 stökkbreytingar hafi greinst í nýja Ómíkron-afbrigðiði kórónuveirunnar, þar af um 30 í hinu svokallaða gaddageni veirunnar sem stjórni framleiðslu á „spike prótíni“ og að það sé langt umfram það sem áður hafi sést.

„Þegar svo margar stökkbreytingar verða á S-prótíninu þá vakna áhyggjur af því að smithæfni hennar kunni að aukast, hún geti valdið alvarlegri veikindum og að ónæmi sem fengist hefur af fyrri sýkingum og bólusetningum muni ekki vernda gegn frekari sýkingum/smiti.“

S-prótín finnst á yfirborði veirunnar og stýrir því hvernig hún kemst inn í frumur líkamans. Hún gegni því lykilhlutverki við dreifingu og fjölgun veirunnar í líkamanum, að því er Þórólfur greinir frá í minnisblaðinu.

„Ónæmiskerfi líkamans myndar einnig mótefni gegn prótíninu í kjölfar náttúrulegra sýkinga og eftir bólusetningu sem verndar gegn frekari sýkingum.“

Þótt þær aðgerðir sem nú eru í gildi á landamærunum eigi að minnka áhættuna á að Ómíkron-afbrigðið berist inn í landið komi þær ekki að öllu leyti í veg fyrir það, að sögn Þórólfs.

Við þurfum því að vera undir það búin að það geti borist hingað til lands. Jafnframt þurfum við að undirbúa að grípa þurfi til hertari aðgerðum á landamærum,“ segir í minnisblaðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert