Ríkið verði að leggja ný gjöld á bíla

Rafbílum fjölgar ört sem þýðir að tekjur ríkisins af bifreiðatengdum …
Rafbílum fjölgar ört sem þýðir að tekjur ríkisins af bifreiðatengdum gjöldum minnka. mbl.is/Valgarður

Með aukinni rafbílavæðingu hér á landi er ljóst að tekjur ríkisins af t.d. olíugjöldum minnka. Tekjur ríkisins af bílaflota landsmanna nema tugum milljarða á ári hverju.

Fjármála- og efnhagsráðherra segir að við þessum tekjumissi ríkisins verði að bregðast. Á blaðamannafundi í ráðuneyti hans í morgun, þar sem fjárlög næsta árs voru kynnt, kom meðal annars fram að stjórnvöld geri sér vel grein fyrir þessu.

„Ég held að það sé alveg augljóst að við verðum með einhverjum hætti að fá greiðslur fyrir afnot af vegakerfinu. Við höfum fengið þá greiðslu þegar fólk dælir eldsneyti á bensínstöðvum landsins hingað til, en nú er það smám saman að breytast og við þurfum að aðlaga okkur að þessum breytta veruleika,“ sagði Bjarni við mbl.is að fundinum loknum. 

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, á blaðamannafundi í ráðuneytinu í …
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, á blaðamannafundi í ráðuneytinu í morgun þar sem fjárlög næsta árs voru kynnt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sprenging í innflutningi rafbíla og tengiltvinnbíla

Samkvæmt tölfræði Samgöngustofu voru á þessu ári nýskráðir rúmlega 3.700 hreinir rafbílar og 4.200 tengiltvinnbílar. Það er aukning í veldisvexti í samanburði við tölur frá árinu 2016 til dæmis, þegar nýskráðir hreinir rafbílar voru alls 401 talsins og tengiltvinnbílar alls 782.

Árið 2016 voru nýskráðir bensín- og díselbílar samanlagt ríflega 22 þúsund talsins en í ár voru samanlagt fluttir inn um sjö þúsund bensín- og díselbílar.

Fjármálaráðherra segir að ekki liggi fyrir hvernig staðið verði að þessari tekjuöflun en með tíð og tíma munu engar tekjur fást af eldsneytiskaupum Íslendinga. Hann segir þannig tvær leiðir færar, annars vegar fast gjald eða gjald í takt við notkun hvers og eins bíls. Bjarni nefnir t.a.m. kílómetragjald í þessu sambandi.

„Við þurfum að taka með einhverjum hætti upp breytingu sem getur verið í formi fastagjalds eins og bifreiðagjalds en líka í formi kílómetragjalds. Þar er bara spurningin hversu framsæknar lausnir tæknin býður upp á í dag, að hvaða marki við getum haft þetta sjálfvirkt og að hvaða marki við erum nauðbeygð til þess að láta lesa af mælum eða fela fólki að lesa af mælum og skila inn. Þetta eru verkefni sem við þurfum að fást við,“ segir Bjarni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert