Tveir milljarðar aukalega vegna löggæslu

Jón Gunnarsson nýr dómsmálaráðherra, en undir hann falla málefni lögreglu, …
Jón Gunnarsson nýr dómsmálaráðherra, en undir hann falla málefni lögreglu, fullnustukerfisins og landhelgisgæslu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Útgjöld til málaflokks almanna- og réttaröryggis mun hækka um 3 milljarða samkvæmt fjárlagafrumvarpi sem var kynnt í dag. Það eru 1,8 milljarðar umfram verðlagshækkun. Nemur hækkunin 5,9% milli ára, en samtals munu 34,3 milljarðar fara í málaflokkinn. Til hans telst meðal annars löggæsla, landhelgismál, ákæruvald og réttaraðstoð.

Stærsti útgjaldaflokkurinn þar er löggæsla, en gert er ráð fyrir að útgjöld til löggæslu hækki um rúmlega 2 milljarða Framlag til landhelgismála hækkar um 160 milljónir og til ákæruvalds um 180 milljónir. Hins vegar er gert ráð fyrir að framlög í réttaraðstoð og bætur muni dragast saman um 400 milljónir, en að sama skapi hækka framlög í fullnustumál um tæpan milljarð.

1,2 milljarðar í samhæfingarmiðstöð á árinu

Þegar horft er til lögreglunnar er stærsti einstaki liðurinn sem hækkar framlag til uppbyggingar samhæfingarmiðstöðvar viðbragðsaðila á höfuðborgarsvæðinu. Gert er ráð fyrir að hlutur lögreglunnar á þessu ári nemi 485 milljónum, en samtals er gert ráð fyrir 1.184 milljónum á þessu ári í samhæfingarmiðstöðina frá öllum málaflokkum.

Þá eru settar auka 284 milljónir í að endurnýja og auka búnað á landamærum. Er þar um að ræða fjárfestingar í alþjóðakerfum í tengslum við Schengen-samstarfið.

362 milljónir í lögregluembættin

Samtals verða settar aukalega 362 milljónir til að styrkja rekstrargrundvöll nokkurra lögregluembætta, meðal annars til að mæta alþjóðlegum skuldbindingum og byggja upp stafræna innviði. Fara 124 milljónir til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu til að mæta auknum verkefnum rannsóknardeildar. Þá fara 45 milljónir til almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, en það á að samsvara kostnaði við þrjú stöðugildi.

Þá fara 44 milljónir í tengslum við stöðulið Frontex og 14 milljónir aukalega til lögreglunnar á Suðurnesjum til að styrkja rekstur flugstöðvardeildar. Fær embættið jafnframt millifært 26 milljónir frá lögreglunni Norðurlandi eystra og í Vestmannaeyjum.

Þá eru settar 75 milljónir til kaupa á nýjum björgunarbát fyrir björgunarsveitina Sæbjörgu á Flateyri.

Sem fyrr segir lækka útgjöld í málaflokkinn réttaraðstoð og bætur um rúmlega 400 milljónir. Er það sem svarar tímabundinni viðbót á síðasta ári vegna sanngirnisbóta.

841 milljón í framkvæmdir á Litla-Hrauni

Þegar kemur að fullnustukerfinu er gert ráð fyrir að um 940 milljón króna aukningu milli ára. Spilar þar stærst 841 milljóna aukaframlag vegna hönnunar og undirbúnings við framkvæmdir á Litla-Hrauni. Heildarkostnaður verkefnisins er 1,87 milljarðar, en áætlað var að 73 milljónir kæmu á þetta ár og að 954 milljónir falli á árið 2023. Við hönnun verkefnisins var lögð áhersla á að gera húsnæðið öruggara fyrir starfsfólk, fanga og aðstandendur þeirra og lágmarka fíkniefni inn og út úr fangelsinu með bættri aðgangsstjórnun

mbl.is
Loka